19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Pjetur Ottesen:

Jeg vildi aðeins bera fram þá fyrirspurn til hv. landbn., hvort hún hefði athugað það, sem hv. þm. V.-Húnv. benti á viðvíkjandi f.-lið 3. gr. Í frv. stendur, að skilyrði fyrir láni úr sjóðnum sje: „að húsin sjeu vátrygð fyrir upphæð, er nemi fullu kostnaðarverði þeirra“. Nú er svo ákveðið um brunabótasjóði í sveitum, að 1/5 af verði húsanna sje í sjálfstrygging, og er því sýnt, eins og háttv. þm. V.-Húnv. benti á, að þetta hvorttveggja getur ekki farið saman. Með öðrum orðum, þeir menn, sem fá lán úr sjóðnum, eru útilokaðir frá því að vera í brunabótasjóðum sveita. Mig minnir, að allir húseigendur í sveitum — þar sem samþykt um það hefir verið gerð — sjeu skyldugir að vera í brunabótasjóðunum. (JörB: Ef þeir hafa ekki tryggingu annarsstaðar). Þetta ákvæði verður því til þess að veikja aðstöðu sjóðanna að miklum mun. Jeg vildi vekja athygli manna á þessu, því að jeg álít, að mikil nauðsyn sje til þess, að slík tryggingarstarfsemi komist á og að í því sje mikil trygging fólgin fyrir sveitirnar.

Jeg vildi því gera það að till. minni, að engin slík ákvæði væru sett í löggjöfina nú, sem gætu staðið þessari tryggingarstarfsemi fyrir þrifum.