19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Auðunn Jónason:

Hv. þm. V.-Húnv. benti á það við 2. umr. þessa máls, að með því skilyrði frv. fyrir lánum, að húsin yrðu trygð fullu verði, væri húseigendum gert ókleift að tryggja hús sín hjá brunabótasjóðum sveitanna. Hv. landbn. virðist líta svo á, að ekki þurfi annað en breyta tryggingarskilyrðum brunabótasjóðs sveita til þess að samrýma þetta; en sú breyting mundi leiða það af sjer, að iðgjöldin hækkuðu til muna. Það hefir verið litið þannig á, að heppilegra væri fyrir eigandann að hafa iðgjaldið lægra, en bera dálítið af áhættunni sjálfur. Veit jeg, að bátaeigendur á Vestfjörðum kjósa miklu heldur að hafa áhættuna að ¼ og iðgjöldin um leið lág, en að bátarnir sjeu trygðir að fullu og iðgjöldin hærri.

Menn verða að gæta þess, að þar sem um sjálfsábyrgð er að ræða, þá er hægt að hafa iðgjöldin mun lægri. sjálfsábyrgð dregur mjög úr áhættu tryggingarsjóðanna, og þar, sem um samtrygging er að ræða, er ávalt heimtuð sjálfsábyrgð að einhverju leyti. Út af þessari meginreglu, sem styðst við langa reynslu erlenda, má ekki breyta, nema hækka iðgjöldin að stórum mun.

Geri jeg ráð fyrir því, að hv. deild óski þess, að svo vel sje um tryggingarnar búið, að hún fari ekki að brjóta þær viðurkendu reglur, sem alstaðar gilda. Hinsvegar þarf ekki að búast við því, að lánað verði fult verð húsanna, og ætti því ekki að valda lántakendum neinum óþægindum, þótt tryggingin sje að 5/6, eins og nú er.