29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal reyna að vera ekki langorður, þó að nógu langur sje hinn nýrunni dagurinn.

Hæstv. forsrh. (TrÞ) fer villur vegar í því, að það sje brot á þjóðræðinu, þó að mál sjeu afgreidd í stjórnarráðinu fram undir stjórnarskifti. Hann mintist. á tilskipunina frá 27. ágúst. Hún er auðvitað undirrituð af konungi áður en fyrv. stjórn var leyst frá störfum, en hafi hæstv. ráðh. (TrÞ) annars eitthvað að athuga við undirskriftina, verður að fást um það við konunginn.

Hæstv. ráðh. sagði, að þjóðin hefði lýst vantrausti sínu á Íhaldsflokknum við síðustu kosningar. En jeg vil minna hæstv. ráðh. á það, að miklu færri atkvæði standa þó að baki hans flokki en okkur Íhaldsmönnum, svo að honum væri betra að vera ekki að flagga með þjóðarviljanum í þessu efni.

Þá var það Titan. Hæstv. ráðherra þykist vilja gera eins og jeg hafi stungið upp á í fyrra, að láta sjerfróða menn athuga sjerleyfið. En hæstv. ráðh. hefir misskilið mig, ef hann heldur, að jeg hafi ætlað að láta þá ráða, hvort leyfið yrði veitt eða ekki. Jeg ætlaðist til, að þeir væru látnir athuga, hvort gallar væru á uppkastinu frá teknisku sjónarmiði, en alls ekki að gera þá að neinum yfirráðherrum. Því var fjarri, að mjer dytti sú erkiheimska í hug.

Um utanríkismálin hefi jeg fáu við að bæta. Það var rjett, sem jeg sagði, að hæstv. ráðh. hefði tekið sjer aðstoðarmann. Stúlkan, sem var fyrir, fór, og önnur var tekin í staðinn, og hæstv. ráðh. tók sjer aðstoðarmann. Þetta er viðbót.

Um kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu má vera, að hæstv. ráðh. hafi sagt, að hann gæti ekki tekið hana gilda. En jeg býst við, að allir hafi skilið hann svo, að hann ætlaði að greiða atkv. á móti hví, að kosningin yrði tekin gild, og engan órað fyrir því, að hann mundi ekki greiða atkv.

Hæstv. forsrh. talaði mikið um vald sitt. Mjer fanst honum svipa til þeirra þjóðhöfðingja sunnan til á hnettinum, sem halda, að þeir sjeu stórveldi og ráði gerðum sínum að sjerhverju leyti, þó að þeir lúti yfirstjórn annara ríkja.

Þá voru það spörðin. Þar sneri hæstv. ráðh. út úr. Jeg sagði, að hæstv. dómsmrh. hefði verið að tína saman spörð í dómsmálaskrifstofunni. Annars datt mjer ekki í hug, að hæstv. forsrh. færi að fást við bautasteina — hingað til hefir honum verið miklu kærara að fást við spörð.

Jeg held, að jeg geti nú kvatt hæstv. forsrh., en jeg tek það fram, að jeg afsala mjer ekki ódauðleikanum, sem jeg öðlaðist fyrir tilmæli hæstv. dómsmrh.

Hæstv. dómsmrh. fór að tala um landhelgisjóðinn til þess að leiða athyglina frá málinu. Hann sagði, að við Íhaldsmenn hefðum gefið Vestmannaeyingum 25 þús. kr. En svo stóð á, að hingað var símað, að togarar væru á landhelgiveiðum, og Þór var fenginn til að hafa hendur í hári þeirra. Honum tókst það og ríkið fjekk um 60 þús. kr. í sektum. Helmingurinn tæplega af því var svo greiddur fyrir ferðina. Þannig er rjett frá þessu skýrt.

Út af ráðherrabústaðnum vil jeg upplýsa það, að viðgerðin fór fram í samráði við miðstjórn Framsóknarflokksins. Hvað snertir viðgerðina á húsi Jóns heitins Magnússonar, vil jeg segja það, að hann hefði sjálfur borgað hana að miklu, ef hann hefði lifað. Hann var ekki fjesínkur maður. En þegar hann fjell frá, að því er margir hjeldu vegna umstangs út af konungskomunni, þótti rjett og sjálfsagt að greiða kostnaðinn úr ríkissjóði í bili, en enginn efi er á, að þetta verður endurborgað, ef Alþingi vill.

Þá var það hinn enski togari, sem „Óðinn“ hjálpaði á Húnaflóa. Þar las hæstv. ráðh. (JJ) sjálfur sönnunina fyrir rjettmæti míns málstaðar, þar sem hann lagði fram skeytið frá Jóni Krabbe. En þar er það beint tekið fram, að skipshöfnin hafi fengið sinn 1/3 af björgunarlaununum, en danska ríkið hafi gefið eftir sinn hluta.

Nú vil jeg spyrja: Hvernig getur maður gefið eftir það, sem maður á ekki rjett til? Sem sagt, þar var alveg eins að farið og hjer, nema þar var rjettum hlutaðeiganda gefin upphæðin eftir, en hjer er hún gefin alt öðrum.

Þá kem jeg að olíudunkunum við Skerjafjörð. Jeg get sagt hæstv. ráðh., að jeg kom ekki nálægt því fyrirtæki fyr en nú um áramót. Þessi læknir, sem hæstv. ráðh. var með dylgjur um, hefir verið starfandi hjá fjelaginu suður í álfum í 10 eða 11 ár. Sje jeg ekkert athugavert við aðstöðu hans. — Hæstv. ráðh. var að tala um eitthvert ríki í Suður-Evrópu, með 20 milj. íbúa, sem hefði tekið upp steinolíueinkasölu án þess að bæta olíuhringunum einum eyri, þótt allar þeirra stöðvar yrðu ónýtar. Hann hefir sennilega átt við Spán með þessum ummælum sínum, þótt hann þyrði ekki að nefna hann, til að minna menn ekki enn einu sinni á líkinguna með ráðandi manni þar í landi og dómsmálaráðherra Íslendinga. En jeg get sagt hæstv. ráðherra það, að hann þarf ekki að greiða þessu fjelagi einn eyri í bætur, þótt steinolíueinkasala verði upp tekin. Ef landið sjer sjer þá ekki hag í að kaupa dunkana, þá verða þeir bara að standa auðir.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að íslensku togararnir hefðu stolið 20 þús. skpd. af fiski undir Jökli í fyrra. Mjer þætti fróðlegt að vita, hver hefir vegið þetta fyrir hæstv. ráðh., fyrst hann veit það svo nákvæmlega. Vona jeg, að hann verði svo hreinskilinn að segja, hvaðan hann hefir þetta, því að satt að segja þykir mjer það undarlegt, að hann skuli vita svo nákvæmlega, hve mikið af fiski botnvörpunganna er „illa fengið“. En e. t. v. hefir þetta aðeins átt að skiljast sem gamansemi ráðherrans.

Þessu næst spurði hæstv. ráðh., hvort jeg vissi til þess, að ákveðinn lögfræðingur hefði haft hag af láni því, er veitt var úr Fiskiveiðasjóði út á „Stefni“. Jeg get lýst ákveðið yfir því, að jeg hefi enga hugmynd um, að neinn lögfræðingur hafi haft nokkurn hag af lánveitingunni. — Ekki var það heldur rjett með farið, að þetta væri í fyrsta sinn, sem lán úr Fiskiveiðasjóði fengist ekki endurgreitt. Það hafði komið fyrir áður.

Um olíugeymana vildi jeg bæta því við, að hæstv. ráðh. fór aldrei út í það, hvers vegna þeir væru svo hættulegir sjálfstæðinu. Jeg er hræddur um, að stórir bryndrekar ættu til dæmis bágt með að sigla inn Skerjafjörð eftir olíu, ef það er eitthvað þess háttar, sem hæstv. ráðh. óttast.

Þá nefndi hæstv. ráðh. enn Thorcilliisjóðinn, og fór þar alveg jafnrangt með og í gær. Hann sagði, að stjórnin hefði afhent Oddfellowum sjóðinn, en sannleikurinn er sá, að þeir hafa gefið sjóðnum 40–50 þús. kr. með nokkrum skilyrðum. Það er sannleikurinn, og alt annað, sem sagt hefir verið um málið, tómar blekkingar. Klemens Jónsson, fyrv. Framsóknarráðherra og æðsti maður Oddfellowreglunnar hjer á landi, leiðrjetti þetta strax í stjórnarblaðinu. Er hastarlegt, að hæstv. dómsmrh. skuli samt sem áður tvíendurtaka þessa röngu skýrslu sína í umræðunum. — Annars geri jeg ráð fyrir, — þótt jeg hafi ekkert umboð til að fullyrða það, — að fjelagið hafi ekkert á móti því að taka við peningunum aftur og láta Thorcilliisjóðinn einan eftir hjá hæstv. stjórn. En þótt hæstv. ráðherra reyni að bregða fæti fyrir þetta fjelag og starfsemi þess, get jeg fullyrt, að það mun ekki láta aftra sjer frá að halda henni áfram. Þótt hæstv. dómsmálaráðherra vilji vinna Heródesarverk á börnunum, mun Oddfellowreglan halda áfram að reyna að bjarga þeim. Mjer skildist á hæstv. ráðherra, að hann væri að lofa að bera fram till. til þál. um þetta efni í annarihvorri deildinni. Vil jeg þá vona, að hann geri það í þessari háttv. deild, svo að mjer gefist kostur á að svara fyrir gerðir mínar.

Það tekur því varla að minnast meira á Barðastrandarsýslu. Hæstv. ráðh. virðist leggja höfuðáhersluna á að ergja þennan unga lögfræðing í Stjórnarráðinu, sem fór vestur. Hann ber honum á brýn, að hann hafi misnotað aðstöðu sína á opinberu uppboði á Patreksfirði. — Að vísu var þessi ungi maður ekki beinlínis sendur vestur. Hann ætlaði vestur hvort sem var í eigin erindum, og þá bað fyrverandi fjmrh. (JÞ) hann að skoða hjá sýslumanni um leið, gegn því að hann fengi greiddan hálfan ferðakostnað. Svona hygg jeg, að þetta hafi gengið til, og get jeg ekki sjeð, að þessi efnilegi ungi maður eigi nokkurt álas fyrir framkomu sína. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að sjóðþurð hljóti þá að hafa verið komin hjá þessum sýslumanni, þar sem hún er svo mikil nú, ári síðar, er skoðað er aftur. En það má leiða rök að því, að á þessum tíma hefir sýslumaður átt í ýmsum stórræðum og lagt stórfje í ýms fyrirtæki, bæði vestra og hjer í bæ. Nemur það sennilega samtals svipaðri upphæð og sagt er, að sjóðþurðin sje.

Hæstv. ráðh. hældi sjer mikið fyrir minkandi receptagjafir í landinu. Jeg sagði áður, að það er ekki sjáanlegt af útkomnum skýrslum, að receptagjafir hafi neitt minkað, síðan hann tók við stjórn. Og eins og hæstv. ráðh. hefir hegðað sjer í umr., þykist jeg alls ekki skyldugur að trúa sögusögn hans um þetta, fyr en lagðar hafa verið fram skýrslur um málið. Annars bera allar skýrslur það með sjer, að receptum hefir altaf farið fækkandi á undanförnum árum, og er ekkert undarlegt, þótt þeirri fækkun haldi áfram. — Mjer var ekki ljóst, hvað það átti að þýða að skýra frá því í umræðunum, að einhver bryti á „Lagarfossi“ hefði selt vín. Þótt hæstv. ráðh. sje kröfufrekur til annara, gat hann þó ekki ætlast til þess, að jeg væri altaf með öllum íslenskum skipum að gæta brytanna.

Jeg spurði um snúning hæstv. ráðh. í Spánarsamningamálinu í fyrri ræðu minni, en hann vildi mótmæla því, að nokkur snúningur hefði átt sjer stað. Í fyrra vildi hæstv. ráðh. þó láta endurskoða Spánarsamningana, en nú vill hann það ekki. Í fyrra vildi hann leggja niður vínbúðirnar úti um land, en nú hreyfir hann hvorki legg nje lið til þess. Þetta vil jeg leyfa mjer að kalla snúning. Hæstv. ráðh. vildi raunar skjóta sjer undir atkvgr. um þetta mál í Sþ. í fyrra. En jeg man ekki betur en annar þessara liða, sem hjer er um að ræða, væri þá feldur með jöfnum atkvæðum. Og hygg jeg, að hæstv. ráðh. hafi í einhverju breytt meira á móti vilja síðasta Alþingis heldur en þótt hann færi sínu fram í þessu.

Þá koma varðskipin enn. Hæstv. ráðh. hafði það eftir mjer, að launalögin væru aðallögin. Þetta sagði jeg ekki, en hitt sagði jeg, að varðskipalögin gætu ekki gengið í gildi að því er afskráninguna snerti, fyr en launalögin kæmu til framkvæmda. Þá væri fenginn löglegur samningur um launin milli skipverjanna og hins opinbera. — Jeg endurtek það, að afskráningin þurfti ekki fram að fara, en þar fyrir var ekki ólöglegt, að hún færi fram. Og af því að ýmsir hásetanna álitu hana nauðsynlega, var hún látin fara fram. — Hæstv. ráðh. var að gera mjer upp hugsanir um það, hvers vegna jeg hefði ekki skipað í embættin á varðskipunum áður en jeg fór úr stjórninni. Jeg veit líklega eins vel og hæstv. ráðh. um mínar eigin hugsanir, og get lýst yfir því, að fjarri fer, að rjett sje til getið. Jeg hefi þegar áður vísað hæstv. ráðherra á, hvar hann getur fengið áreiðanlega vitneskju um, hvernig á því stóð, að óskipað var í embættin. Hann getur best fengið að vita það hjá sínum eigin skrifstofustjóra. Og jeg er ekki í vafa um, að hæstv. ráðh. hefir fengið að vita sannleikann í málinu fyrir meira en mánuði. — Þá talaði hæstv. ráðh. enn um æfilanga veitingu starfsmannanna eftir lögunum. Jeg held nú, að hann gerði rjett í að lesa lögin áður en hann ber fram svona fullyrðingar, því að í lögunum stendur það skýrum stöfum, að nær öllum starfsmönnunum megi segja upp með 6 mánaða fyrirvara.