14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. (Einar Árnason):

Frv. þetta er hingað komið frá hv. Nd. og er stjfrv. Hæstv. landsstjórn mun hafa lagt það fyrir Alþingi sakir þess, að hún telur ríkissjóð ekki mega vera án þeirra tekna, er gengisviðaukinn færir honum. Ákvæði frv. um 25% gengisviðauka af ýmsum tollum hafa nú gilt í nokkur ár, þó svo, að þau hafa jafnan verið framlengd til fárra ára í senn. Nú er heimildin til að innheimta gengisviðaukann útrunnin í árslok 1928, og leggur hæstv. stjórn til, að hún verði framlengd um 2 ár, til ársloka 1930. Vil jeg geta þess, að í fjárlagafrv. hæstv. stj. er reiknað með þessum tekjum.

Fjhn. hefir fallist á þá skoðun hæstv. stj., að ríkissjóður muni þurfa þessara tekna, og leggur því til, að frv. verði samþ. Þó ber einn nefndarmaður fram brtt. um það, að gengisviðaukinn verði feldur niður af kaffi- og sykurtolli. Ef sú brtt. verður samþ., er vitanlegt, að það heggur allstórt skarð í tekjur ríkissjóðs af frv. Hinsvegar er að ýmsu leyti sanngjarnt að veita nokkrar ívilnanir um þessa tolla, einkum sykurtollinn. Annars hefi jeg ekki umboð til að segja annað um þessa brtt. frá nefndinni en það, að um hana eru óbundin atkv.