14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Kristjánsson:

Jeg vildi með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Hún er töluvert önnur en sú, sem komið hefir fram hjá þeim hv. þm., sem talað hafa. Jeg lít á hina heilbrigðifræðilegu hlið málsins og tel mjög nauðsynlegt að gera eitthvað í þá átt að leiðbeina almenningi í því að nota sem minst hinar svo kölluðu „luxusvörur“, a. m. k. ekki um skör fram, og jeg er einmitt á þeirri skoðun, að hinn hái tollur á kaffi og sykri vinni í þá átt að því er þær vörutegundir snertir, og það tel jeg vel farið, því að jeg er ekki í minsta vafa um, að kaffi og sykur á sinn þátt í þeirri vanheilsu, sem þjáir fólk nú á síðustu tímum. Annars var það ekki meining mín að fara að halda neinn heilsufræðilegan fyrirlestur að þessu sinni, en jeg vildi taka þetta fram, af því að jeg er ráðinn í því að greiða atkv. á móti brtt. hv. 5. landsk. (JBald), því eins og jeg tók fram áðan, tel jeg rjett að hafa toll á þessum vörum háan, til þess að bægja fólki frá að nota þær í óhófi. Það er talið, að tollauki sá, sem hjer er um að ræða, muni nema ríkissjóð ca. 200 þús. kr., og það má vel vera, að rjett sje. En jeg fyrir mitt leyti vildi vinna til að missa þessar tekjur úr ríkiskassanum, ef þær væru notaðar til þess að vinna að því að kenna fólki, að einmitt þessar vörutegundir og aðrar þeim líkar eru óhollar og ættu því ekki að notast nema í mesta hófi meðal alþýðu. Jeg tel því síst ástæðu til þess að kippa burtu þessari tollaukningu.