14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Erlingur Friðjónsson:

Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 6. landsk. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að hár tollur á kaffi og sykri væri nauðsynlegur, til þess að venja fólk af að nota þessar vörur. En því er nú svo varið, að fólk lærir ekki sparnað á því, þó að tollar sjeu hækkaðir á þeim vörum, sem það nauðsynlega telur sig þurfa að nota. Annars má það vel vera, að hægt sje að finna einhverja leið til þess að venja fólk af því að nota þessar vörutegundir, en það er víst, að það verður ekki gert með því að hækka á þeim tollinn.

Þó að sumum kunni að virðast þetta vera „luxusvörur“, þá er það alls ekki eins og nú standa sakir; þær eru þvert á móti eitt af lífsnauðsynjum manna, og það verður því að finna önnur matvæli, sem geta komið í þeirra stað, a. m. k. hjá sjómönnum okkar og þurrabúðarfólki, ef þeim verður kipt í burtu. Og einmitt af því, að þessi stjett manna verður að nota mikið af þessum vörum, þá er jeg með því að lækka tollinn á þeim. Það væri alt öðru máli að gegna, ef hægt væri að auka svo mjólkurframleiðsluna í kaupstöðum og kauptúnum landsins, að hvert einasta heimili gæti fengið nægilega mjólk með góðu móti. Ef um það væri að tala, myndi jeg geta sætt mig við till. hv. 6. landsk. Að sjálfsögðu get jeg gengið inn á það, að notkun þessara vörutegunda geti minkað í landinu, því að hjá ýmsum eru þær eflaust notaðar í óhófi, en þar sem svo er, að þær verða ennþá að teljast nauðsynjavörur fyrir mikinn hluta þjóðarinnar, þá er aðstaða mín sú, að jeg greiði atkvæði með því, að 25% gengistollaukinn, sem á þeim hvílir, verði afnuminn á þessu þingi.