14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins taka það fram, bæði fyrir mína hönd og samnefndarmanns míns í fjhn., hv. 1. þm. G.-K., að þegar við höfum í nefndinni verið að taka afstöðu til aukningar á tollum og sköttum, þá höfum við gengið út frá því, að þær tekjur fengju að standa, sem stjórnin hefir reiknað með í fjárlagafrv., og þar á meðal er gengisviðaukinn óskertur. Það væri að vísu ánægjulegt, ef aðstaðan væri þannig, að hægt væri að ljetta eitthvað á skattabyrði landsmanna, en það virðist ekki blása byrlega í þá átt.

Að fara að lækka þennan tekjuauka finst mjer síst vera í samræmi við það, sem stj. hefir haldið fram um tekjuaukaþörf. Jeg mun því ekki geta greitt atkv. með brtt. hv. 5. landsk., þar sem stj. hefir beðið um tekjuauka, og því liggur frekar fyrir að hækka en lækka gjaldabyrðina.