14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Erlingur Friðjónsson:

Jeg býst ekki við, að jeg fari að deila við lækninn, hv. 6. landsk., um áhrif kaffi og sykurs á mannlegan líkama: til þess hefi jeg ekki lærdóm að taka upp hernað á móti honum í þeirri grein. En hv. þm. láðist að benda á, hvað ætti að koma í staðinn fyrir þessar vörur, en það finst mjer óumflýjanlegt, að hann geri, því að við getum nú ekki, hvað mikið sem við vildum, stigið yfir virkilegleikann eða stiklað framhjá honum, og hann er sá í þessu máli, að mikill hluti þjóðarinnar kemst ekki hjá að nota þessa fæðutegund, sem hjer er um að ræða. Jeg segi „fæðutegund“, enda þótt hv. 6. landsk. vilji ekki ganga inn á, að vörur þessar geti kallast það.

Það er hægt að halda sparnaðarræður og prjedika sparnað í þessum efnum fyrir þeim, sem hafa nóga mjólk, en til hinna er ekki hægt að tala, meðan ekki er hægt að benda á neitt í staðinn.

Annars virðist mjer það ekki tekið með í þessum umr., að það er eftir mjög hár tollur á þessum vörutegundum, þó að mesti kúfurinn sje tekinn ofan af, eins og farið er fram á í brtt. hv. 5. landsk. Tollurinn, sem eftir verður á þessum vörutegundum, þótt gengisviðaukinn sje afnuminn, nemur hvorki meira nje minna en 700–800 þús. kr. í ríkissjóðinn árlega.