29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1929

Ólafur Thors:

„Þynnast bráðum gerði fjanda flokkur“. Nú er mannfall mikið og fátt orðið vígra manna í deildinni. Sje jeg engan andstæðinga minna nema hæstv. forseta. Hæstv. ráðherrar eru fallnir í valinn eða óvígir orðnir. — Þó bregður þar fyrir hæstv. fjmrh. enn uppi standandi, enda hafa fæst verið á hann borin vopnin. En ef líf leynist enn með þeim hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., vona jeg, að þeir sjeu svo nærri og ekki meira af þeim dregið en svo, að þeir megi heyra mál mitt.

Jeg spurði hæstv. forsrh. að því, hvort hann hefði trygt sjer yfirlýsing hæstv. fjmrh. um, að hann væri ákveðinn verðfestingarmaður, áður en hann bauð honum að skipa þann sess, er hann nú skipar, og hæstv. fjármálaráðherra gaf sjálfur með ummælum sínum ástæðu til þessarar spurningar. Þetta var aðalkjarni málsins í ræðu minni. En hæstv. forsrh. hefir engu svarað þessu höfuðatriði, heldur fjölyrti um ýmsar aðrar, ýmist óskyldar ellegar ómerkilegar hliðar þessa máls. Jeg skal því ekki þreyta þá fáu hv. þm., sem hjer sitja, með því að orðlengja þetta. Þó vil jeg benda á, að eitt markvert atriði kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Hann lagði sem sje ákaflega mikið upp úr þeirri röksemd sjer til varnar, að það væri í raun og veru alveg sama, eins og hann sagði, hvort myntlagabreytingin færi fram degi fyr eða seinna. Ef þetta er alvara hæstv. forsrh., þá er það mála sannast, að honum ber að vinda bráðan bug að því, svo fremi hann vill vera hugsjón sinni trúr, að koma með frv. til breytinga á myntlögunum, eða aðrar þær tillögur, er miða að festingu, því að eins og stendur er það á hans valdi sem stjórnarformanns, að það verði lögfest á þessu þingi, en enga vissu hefir hann fyrir því að skipa forsætisráðherrasess á næsta þingi. Það er því skylda hans, ef honum er hugleikið að koma málinu í höfn, að bera fram frv. það, er jeg var að spyrja um, en fjekk steina fyrir brauð, er hann bjóst til svara.

Fleiri orðum þarf jeg ekki að eyða á hæstv. forsrh. En jeg verð að lýsa vanþóknun minni yfir því, að hann sneiddi hjá aðalkjarna málsins og synjaði svars við þeirri höfuðspurningu, er jeg bar fyrir hann.

Þá sný jeg mjer að hæstv. dómsmrh. — Mjer þótti hann verða illa við raunum sínum, er jeg deildi á hann. Og er hann stóð upp til andsvara, varð minna úr en jeg bjóst við. Það er því síður ástæða til að segja margt, en örfá atriði verð jeg þó að minnast á.

Út af því, er jeg hefi áður sagt um framkomu fyrverandi stjórnar og núverandi í strandmálinu sæla, sagði hæstv. dómsmrh. merkilega setningu. Hann sagði nefnilega, að það hefði aðeins verið hægt með einu móti að bjarga heiðri landsins út á við vegna gerða fyrverandi stjórnar, og þetta eina bjargarráð var það, að falla frá kröfum stjórnarinnar um björgunarlaun. Hví þá ekki að framkvæma það? En þótt merkilegt megi virðast, fer hæstv. núv. landsstjórn ekki að þessu ráði, heldur krafðist hún peninganna, innheimti þá og gaf þá síðan líknarsjóði í Hull. Hvað það hefir bætt úr skák, skil jeg ekki. Ef fjárkrafan var órjettmæt, var annað tveggja að gera, láta hana niður falla, eða, ef það var ekki hægt, að endurgreiða rjettum aðilja það fje, er ranglega var af honum tekið.

Jeg hefði haft gaman af að vita, hver afstaða hæstv. dómsmrh. hefði verið til þessa björgunarmáls, ef um íslenskan togara hefði verið að ræða. Mundi hann þá hafa neitað að taka björgunarlaun? Jeg held hreint ekki. En ef það er landinu sæmandi gagnvart íslenskum skipum, þá er það eins um útlend skip. Það skiftir ekki máli, hvað Danir gera. Við skulum fara okkar fram og láta þá um sig.

Einn maður hefir hjer í nótt yfirstigið hæstv. dómsmrh. í gorti, og það er hæstv. forsrh., sem öllum þykist þurfa að þakka og snýr öllu til hóls um sjálfan sig. Þessi framkoma hans minnir mig á atburð, sem sagt er, að gerst hafi norðanlands fyrir nokkru. Varð tíðrætt um mont og yfirlæti og deilt um, hverjir væru grobbnastir. Var stofnað til kappmóts og sett dómnefnd. Mættu á þessu grobbmóti Skagfirðingar og Þingeyingar og töldu sig montnasta hvorir um sig. Leiddu þeir saman hesta sína, og mátti vart á milli sjá, hvorir væru fremri í þessari göfugu íþrótt. En svo fór, að dómnefndin úrskurðaði, að Siglfirðingar, sem höfðu þó ekki tekið þátt í kappinu, skyldu hljóta verðlaunin sem montkóngar.

Jeg er nú að leita að einhverjum, sem ekki hafi tekið þátt í umræðum og þó verið grobbnastur í dag, og get helst engan fundið, nema ef vera skyldi, að háttv. þm. V.-Húnv. (HJ) ætti skilið að fá verðlaunin, þótt hann hafi ekki um þau sótt.

Það hefir verið spaugilegt og hin besta skemtun að hlusta á mál hinna hæstv. ráðh. (TrÞ og JJ) og heyra, hve lítilfjörlegum atriðum og ólíklegurn þeir hafa getað fundið ástæðu til að stæra sig af.

Út af strandvarnamálinu sagði hæstv. dómsmrh., að togararnir hefðu stolið — eins og hann orðaði það — 20 þús. skippundum af fiski úr landhelgi í vertíðarbyrjun í fyrra. Hvar var varðskipið þá? Hæstv. ráðh. hefir svarað spurningunni sjálfur. Eitt af tvennu, að það hafi brugðist skyldu sinni eða verið hindrað af stjórninni við varðgæsluna, þannig að hún hafi lagt bann fyrir, að togararnir væru teknir. Þetta er algerlega ósæmileg aðdróttun. Þetta vildi jeg víta. Því var jeg bituryrtur. Hver getur sagt, hversu skaðlegt þetta reynist, ef það frjettist eftir hæstv. dómsmrh., að hann drótti að fyrverandi stjórn, að hún hafi hamlað varðskipinu í að gæta landhelginnar? Þetta er vítavert og má ekki eiga sjer stað.

Þá komu nokkur bituryrði í minn garð frá hæstv. dómsmrh. Mjer dettur ekki í hug að lá hæstv. ráðh., þótt hann fyndi ástæðu til þess að sveigja að mjer eftir svo harðvítuglega árás.

Það kemur fyrir, að gleggstu læknar leggja menn á skurðarborðið af því að þeir telja þá sjúka; en er til kemur, finna þeir ekki meinsemdina. Mjer fanst hæstv. ráðh. farast eitthvað líkt, er jeg var lagður undir hníf hans og hann tók að leita að meinunum.

Hæstv. ráðh. fann þrent mjer til foráttu. Í fyrsta lagi, að jeg hefði haldið ræðu, þar sem jeg lagðist á móti síldarverksmiðju. Það hefi jeg að vísu ekki gert, en þó að jeg hefði gert það, þá væri það með góðri samvisku og fullum sóma.

Næst ámælti hæstv. ráðh. mjer fyrir það, að jeg hefði verið talhlýðinn fyrverandi stjórn í gengismálinu, þótt „Kveldúlfur“ skaðaðist við það um miljónir. Það áleit hann óhæfu, að jeg skyldi ekki rísa öndverður, ef „Kveldúlfur“ skaðaðist. Jeg reis nú öndverður gegn fyrv. stjórn í þessu máli, ekki af því að „Kveldúlfur“ skaðaðist, heldur þrátt fyrir, að „Kveldúlfur“ skaðaðist.

Málið var mjer erfiðara vegna þess, að jeg vildi gæta því meiri varfærni í rannsókn þess, sem skaði „Kveldúlfs“ var meiri af hækkuninni. Mjer bar ekki að líta á skaða „Kveldúlfs“, heldur heill alþjóðar. Og þegar jeg kvað upp úr með stefnu mína, var það af því rannsókn mín sýndi mjer, að ísl. þjóðin fengi ekki risið undir hækkuninni.

Ekki er nú af miklu að taka, þegar þetta er ein af mínum þrem syndum, að láta ekki eiginhagsmunina ráða.

Þriðja meinsemdin, sem hæstv. dómsmrh. fann í fari mínu, var í sambandi við landhelgimálin. Jeg vil ekki þreyta syfjaða þingmenn á því að ræða það mál nú. Mun tækifæri gefast til þess síðar.

Þó verð jeg að taka undir með háttv. þm. Vestm. (JJós), að það er næsta hjákátlegt, þegar hæstv. ráðh. fer að lesa upp grein eftir danskan varðskipsforingja, sem vegur að hinni íslensku togaraútgerð og landhelgigæslu líkt og hæstv. ráðh. sjálfur. En í þessari grein er ekkert, sem hæstv. dómsmrh. hefir ekki sagt áður, og það margoft og löngu áður. — Það var einu sinni maður, sem var dálítið ósannsögull. Nú kom það fyrir einn góðan veðurdag, að hann laug smávegis, eins og hann oft átti vanda til. Seinna um daginn hittir hann svo einn af borgurum bæjarins, er segir honum söguna, er hann sjálfur hafði skáldað að morgni hins sama dags. Er hann heyrði sína eigin skröksögu af vörum hins ráðvanda borgara, gleymdi hann uppruna hennar og lagði staðfastan trúnað á sína eigin lýgi.

Líkt fer hæstv. dómsmrh. Hann hefir um nokkurt skeið haft í frammi slúður um þessi mál. Einhver hefir gerst til þess í einfeldni sinni að trúa honum; og þegar svo ráðherra heyrir sinn eiginn uppspuna afturgenginn, finst honum hjer sje um nýtt og merkilegt atriði í málinu að ræða og hljóti að vera satt.

Önnur hallmæli hæstv. dómsmrh. í minn garð hnigu ekki í aðra átt en þá, að hann var að tala um heimsku mína, uppeldisleysi og götustrákshátt og annað þess háttar.

Jeg minnist þess, án þess jeg ætli að öðru leyti að draga samlíkingu milli mín og Lloyd George, að eitt sinn deildi andstæðingur hans á hann og brigslaði honum um, að hann væri maður ómentaður og uppeldislaus. „Þjer ferst“, sagði hann, „að vera að gera þig merkilegan hjer. En jeg man svo langt, að hann faðir þinn heitinn gekk hjer um göturnar með vagn og og beitti asna fyrir vagninn“. Lloyd George svaraði: „Mjer þykir gaman, að þetta er rifjað upp fyrir mjer. Vagninn er nú úr sögunni, en mjer þykir vænt um að sjá, að asninn lifir ennþá“. — Jeg legg ekki annað út af þessari sögu en það, að mjer virðist, að ætt asnans muni vera talsvert útbreidd og eitthvað af kynstofninum lifi hjer með hinni íslensku þjóð. Hæstv. dómsmrh. getur skilið það svo sem honum þykir hentast.