23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 3. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg vil leiða athygli hv. deildar að því, að síðan Nd. kvað upp sinn dóm í málinu, hefir þannig skipast um fjárl., að á þeim er orðinn 260 þús. kr. tekjuhalli. Jeg fæ því ekki sjeð, að Nd. geti fært nokkra gilda ástæðu fyrir því að skifta þannig um skoðun í þessu máli. Jeg hygg nú líka, að vald Nd. ætti að vera meira í fjármálum en háttv. Ed., enda eru þar helmingi fleiri þingmenn. Það væri því að snúa öllu öfugt að fara nú að beygja sig fyrir Ed. í þessu máli. Svo að jeg víki aftur að málinu sjálfu, þá er þess tæplega að vænta, að þingið geri tvent í senn, að sjá fyrir og bæta úr hinni miklu tekjuaukaþörf ríkissjóðs og um leið að ljetta af sköttum.

Hv. þm. V.-Húnv. lýsti því yfir fyrir hönd sína og hv. form. fjhn., að mjer skildist, að þeir teldu breytingar Ed. síst til bóta. Þá vil jeg fara þess á leit við þessa hv. þm., að þeir hjálpi mjer til að færa frv. aftur í það horf, sem Nd. gekk frá því, og virðist ekki til mikils mælst, aðeins þess, að þeir fylgi sinni yfirlýstu stefnu og skoðun í málinu. Málinu stafar ekki hætta af þessu, því að verði mín till. samþ., er því borgið í Ed. Jeg get fullvissað hv. þm. um, að Íhaldsmenn í Ed. munu ekki ganga á móti málinu, og þarf þá ekki nema tvo menn úr stjórnarliðinu til þess að meiri hluti fáist með því, og ætti að mega vænta þess, að þeir fengjust, þar sem tveir ráðherrarnir eiga sæti í Ed. og þetta frv. er stjfrv. og með till. minni fært í sama horf og það kom frá stjórninni.