23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Sigurður Eggerz:

Það kom fram hjá hv. þm. V.-Húnv., að hann vildi, að Nd. beygði sig fyrir Ed. í þessu máli. Það hygg jeg, að sje að snúa öllu við. Jeg hygg, að það sje tilætlunin, að þessi deild eigi að hafa meiri völd í fjármálum, enda sýnir það sig á því, að fjárlagafrv. á fyrst að leggjast fyrir Nd. Jeg verð að leggja mikla áherslu á þetta. Jeg hygg nú, að horfi vel um, að þessi hv. deild geti komið fram yfirlýstum vilja sínum í þessu máli, úr því að annar stærri flokkurinn í Ed. er með, og hv. þm. V.-Húnv. hefir upplýst, að hann og væntanlega flokksbróðir hans í fjhn. óski helst að halda við sína fyrri stefnu í málinu og telji breytingar hv. Ed. ekki til bóta. Jeg vil ekki trúa því, sem talað er í krókunum um, að þetta eigi að vera uppfylling einhverra skilmála, er stuðningsflokkur stjórnarinnar hafi sett henni, og að deildin fari nú að víkja frá sinni fyrri stefnu. (Forsrh. TrÞ: Hvers vegna ekki?). Af því að jeg hjelt ekki, að kúgunin væri svo hörð, að Stjórnarflokkurinn mundi þannig breyta um afstöðu, sem hann hefir fyrir skemstu tekið með nafnakalli.