23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Reykv. spurði, hvort hjer væri um stefnubreytingu að ræða hjá stjórninni í þessu máli, eða hvort þetta væri beinlínis stefna hennar að því er kaffi- og sykurtollinn og svo kolatollinn snertir. Jeg get sagt hv. þm. það, að nú er verið að útbýta eða í þann veginn að útbýta till. til þál. um skipun milliþinganefndar til þess að athuga skattamálin; á sú nefnd að hafa lokið sínu starfi fyrir næsta þing, og stendur allur flokkurinn að þeirri nefndarskipun. Með þeirri tillögu liggur fyrir yfirlýsing stjórnarflokksins um það, að hjer sje aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða í skattamálunum.

Út af því þrefi, sem verið hefir um ábyrgðarleysi Íhaldsmanna, er það að segja, að það þýðir ekki fyrir hv. þm. (MJ) að vitna í það, að nú hafi alt þingið fyrir þeirra tilverknað lagt sig til að útvega aukin fjárframlög til verklegra framkvæmda. Það frábæra, sem fram kom hjá Íhaldsmönnum, var það, að þeir vildu láta ákveða fje til verklegra framkvæmda með stórkostlegum tekjuhalla á fjárlögum. Það er ákaflega vel viðeigandi, að sá stjórnmálaflokkur, sem ber ábyrgð á fjáraukalögunum miklu; beri einnig ábyrgð á þessari tillögu um að framkvæma fyrir tekjuhalla.