19.01.1928
Sameinað þing: 1. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 2. kjördeildar (Jón Þorláksson):

Minni hl. kjördeildarinnar gat ekki orðið meiri hlutanum Samferða um að leggja til, að frestað verði að taka gilda kosningu þm. N.-Ísf., Jóns A. Jónssonar. Fyrir kjördeildinni lá ekkert um þá kosningu annað en kjörbrjefið, og er að öllu leyti löglega frá því gengið, eins og kjörbrjefum annara hv. þm.

Hv. frsm. meiri hl. (MT) bar það fyrir, að hafin hafi verið rannsókn út af grun um misfellur eða jafnvel glæpi einstakra manna í sambandi við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Út af því vill minni hlutinn taka tvent fram:

Í fyrsta lagi, að öll rannsókn. út af þessum grun er nú í rjettum höndum, því að landsstjórnin hefir fyrirskipað sakamálsrannsókn út af því. Mun það síðan fara til dómstólanna og þeir, sem sekir verða fundnir, fá dóm og taka út sína refsingu, svo sem lög standa til.

Í öðru lagi fjekk Jón A. Jónsson svo ótvíræðan meiri hluta við kosningarnar, að ekki verður komist hjá að taka kosningu hans gilda samkv. venjum Alþingis og lögum þeim, er um þetta gilda. Við kosninguna fjekk Jón A. Jónsson 641 atkv., en Finnur Jónsson 392. Sjerstaklega var athugað, hve mörg hvor um sig fjekk af heimagreiddum atkv. Var það sem hjer segir: Jón A. Jónsson 57 og Finnur Jónsson 42 atkv., og er hlutfallstala Finns því hærri í hinum heimagreiddu atkvæðum en í kosningunni í heild. — Þessi grunur, sem er um misfellur á kosningunni, beinist nú einungis að nokkrum hinna heimagreiddu atkvæða. Mætti ef til vill líta svo á, sem sannað væri, að ekki væru öll hin heimagreiddu atkvæði löglega greidd. En það hefir oft komið fyrir áður, að Alþingi hefir verið í vafa um, hvort öll atkvæði, sem í kössunum hafa verið, hafi verið löglega greidd, og jafnvel hefir það komið fyrir, að vissa hefir fengist um, að þar voru atkvæði, sem þar áttu ekki að vera.

En Alþingi hefir ávalt litið á það, hvort misfellur þær, sem um gat verið að ræða, snertu svo mörg atkvæði, að það hefði getað breytt úrslitum kosninganna, ef þau væru öll dregin frá þingmanni þeim, sem um var að ræða, og bætt við atkvæði hins frambjóðandans, ef málavextir voru svo, að þau gætu verið frá hönum tekin. — Þegar atkvæðin eru svo fá, að ekki getur orkað tvímælis, hvor hefir meiri hluta löglega greiddra atkvæða, þá á vitanlega að taka kosninguna gilda. Enda ber Alþingi framar öðru að sjá fyrir því, að rjettur kjósendanna sje ekki fyrir borð borinn, og að sá sje lýstur rjett kjörinn þingmaður, sem meiri hluti þeirra hefir kosið á lögmætan hátt.

Nú er það svo, að ef öll heimagreiddu atkvæðin eru tekin frá Jóni A. Jónssyni, þá hefir hann 584 atkv., og ef þessum 57 heimaatkvæðum hans er bætt við atkvæðatölu Finns Jónssonar, þá hefir hann samt sem áður ekki nema 449 atkv. Atkvæðamunurinn yrði þá 135 atkv., sem Jón A. Jónsson hefði fram yfir.

Fyrir því sjer minni hl. 2. kjördeildar ekki annað en að Alþingi hljóti að taka gilda kosningu Jóns A. Jónssonar, og finnur ekki ástæðu til að fresta úrskurði um jafnótvírætt mál.

Minni hlutinn leggur því til, að kosningin í Norður-Ísafjarðarsýslu sje tekin gild.