23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Sigurðsson:

Jeg gerði ekki ráð fyrir að taka til máls undir þessum umr., en hæstv. forsrh. hefir fundist nauðsyn á að höggva til mín og hv. þm. Borgf. Sjerstaklega í ákafa sínum í að sverta Íhaldsflokkinn.

Jeg ætla þó ekki að fara strax út í það, en snúa mjer fyrst að máli því, er fyrir liggur.

Þegar þessi mál eru athuguð, mun oft vera gott að gá að því, hversu nágrannaþjóðirnar skipa þeim hjá sjer. Jeg hefi gætt að þessu hjá þeirri þjóð, sem oss er líkust og lifir við svipaðasta staðhætti, Norðmönnum. Samkvæmt skjölum hefi jeg fundið, að sykurtollurinn hjá þeim er helmingi hærri en hjer á landi. Nú vita allir, að ekki stunda Norðmenn síður sjó en við, og lifa í þurrabúð. Þeir hafa þess vegna meiri ástæðu til að hafa lágan toll á sykri en við; þó er hann hærri hjá þeim.

Viðvíkjandi ummælum hæstv. forsrh. um ábyrgðarleysi okkar hv. þm. Borgf. spurði jeg hann að því, hver eðlismunur væri á útgjöldum þeim, sem sti. stofnar til í frv. sínum, og útgjöldum til verklegra framkvæmda. Jeg hefi ekki fengið svar. Samkvæmt venju er enginn eðlismunur á þessu. Honum mun tæplega takast að benda á eðlilegan greinarmun á þessu tvennu. Hvorttveggja er heimild. Stj. er það í sjálfsvald sett að færa þau útgjöld til. eða fella niður, samanber aðgerðir stj. 1923. Það er vægast sagt broslegt að heyra hæstv. ráðh. bregða, okkur um ábyrgðarleysi, vegna þess að við flytjum till., er nema 200–300 þús. kr. útgjöldum til samgöngubóta, á sama tíma og hann og hans stuðningsmenn flytja útgjaldatillögur, er mundu skapa ríkissjóði yfir 3 milj. kr. tekjuhalla. Þegar svona er í pottinn búið, hittir löðrungurinn, er ráðherrann rjetti að okkur háttv. þm. Borgf., áreiðanlega fyrst og fremst hann sjálfan og stj. Hann ætti fyrst að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum, áður en hann fer að ráðast á okkur háttv. þm. Borgf. fyrir þessar till. okkar um smáútgjöld til samgöngubóta. Þetta tal hans um ábyrgðarleysi okkar er því hrein og bein ósannindi, flutt móti betri vitund.