29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfáar setningar, sem jeg þarf að segja til andsvara hv. þm. Borgf. Um atvinnubæturnar nú er það að segja, að þær hafa á sjer alveg sama blæ og í fyrra. Það voru fulltrúar verkamanna í fyrra og eins nú, sem báru fram kröfuna um atvinnubætur, og það voru fátækrafulltrúarnir, sem áttu að benda á það í fyrra, hverjir skyldu fá vinnuna, og það er eins nú.

Vegamálastjóri sagði mjer, að hjá sjer hefði verið unnið fyrir 10–20 þús. kr. í fyrra, og hjá húsameistara var líka unnið eitthvað; jeg veit ekki hvað mikið.

Hvað snertir það, sem hv. þm. talaði um skoðanaskifti hjá mjer í gengismálinu, þá hefi jeg áður svarað slíku hjali annara hv. þm. svo rækilega, að jeg undrast, að hann — og einmitt hann — skuli koma fram með slíkt hjer. Annars gefst okkur væntanlega síðar á þinginu tækifæri til að tala frekar um það mál. — Hv. þm. mintist á einkaritara minn í sambandi við starfsmannafjölgun í ráðuneytinu, og er þar til því að svara, að fyrirrennari minn hafði slíkan aðstoðarmann, og er því ekki um neina viðbót að ræða.