23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Sigurður Eggerz:

Jeg þarf aðeins að segja örfá orð, og þau aðallega vegna þess, að hv. þm. Mýr. var áðan að víta ummæli mín um það, að þessi hv. deild ætti ekki að víkja fyrir hv. Ed. Jeg hafði fult tilefni til að minnast á þetta, af því að því var haldið fram í þessum umræðum, að við yrðum að ganga að breytingunum á frv., af því að hv. Ed. hefði samþykt þær. En jeg held, að það sje ákaflega óheppilegt að koma þeim hugsunarhætti inn hjá hv. Ed., að hún hafi tögl og hagldir í öllum málum.

Hv. þdm. vita, og mjer er það ljóst sjálfum, að jeg muni engin áhrif geta haft á framgang þessa frv. Þrátt fyrir það vil jeg ekki setjast svo niður, að jeg lýsi ekki afstöðu minni til nokkurra atriða, sem hjer koma til greina.

Það lítur svo út, að mikill hluti hv. þm. þykist sjá samvisku sinni að fullu borgið, ef þeim tekst með einhverjum ráðum að hlaða svo miklum sköttum á þjóðina, að ekki verði tekjuhalli á fjárlögunum. Jeg hefi enga sjerstaka löngun til að raska sálarfriði þessara hv. þm. En jeg vil þó benda á, að til er önnur meginregla í fjármálunum, sem ekki má út af bregða og á sjer dýpri rætur en hin. Og hún er sú, að leggja ekki of þunga skatta á þjóðina. Það þýðir líka lítið að ætla mönnum að greiða há gjöld, ef þeir geta ekki greitt þau og þau innheimtast aldrei. Áður en skattarnir eru ákveðnir, þarf að athuga, hvað þjóðin getur borgað.

Nú vil jeg minna á það, að rauði þráðurinn í kosningaræðunum í sumar var sá, að ekki mætti hækka skattana á þjóðinni. En hvað verður nú úr öllum þeim loforðum, sem frambjóðendur gáfu þá? Það er auðsætt, að útgjöldin hækka stórum. En jeg segi: Gæti hv. þm. sín gagnvart kjósendum sínum! Þeir mega ekki halda, að þeir friði sína samvisku með því einu að rjetta upp fingurna með svo og svo mörgum skattafrumvörpum.

Það er enginn barlómur hjá atvinnurekendum, þó að þeir telji sig ekki geta greitt þunga skatta. Framleiðslan stendur höllum fæti. Um það vitna töp bankanna. Yfirstandandi tími er atvinnuvegunum óhagstæður. Því verður Alþingi að gæta hófs um álögur allar.

Jeg skal ekki lengur þreyta þolinmæði hv. þdm. En jeg vil vara þá við að halda alt of fast við þá trúarsetningu, að aldrei, undantekningarlaust. megi verða tekjuhalli á fjárlögunum. Geta þjóðarinnar verður að ráða mestu um það. Auðvitað verður ekkert tillit tekið til þessara orða minna, af því að þau koma frá minsta flokki þingsins. En fyrir utan þennan sal eru líka menn, sem taka eftir því, sem hjer er sagt. Þeir munu heyra það, sem minsti flokkurinn leggur til málanna — og þeirra er að dæma.