23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg skal svara nokkrum orðum hv. þm. N.-Ísf. Hann byrjaði ræðu sína með því að skjóta því að Framsóknarflokknum, að hann kæmi ekki fram sínum tekjuaukafrv. nema með stuðningi jafnaðarmanna, og væri því gefið, að framsóknarmenn væru undir jafnaðarmenn gefnir. Þegar enginn flokkur getur af eigin ramleik komið fram vilja sínum, finst mjer hæpið að álykta svo, að sá flokkurinn ráði öllu, sem kemur til fylgdar þeim flokknum, er bar málið fram. Þessir hjálparmenn geta vitanlega altaf ráðið ýmsu, en hinir ráða vitanlega líka, hversu langt þeir teygja sig til samkomulags. Jeg býst við því, að stj. muni ekki takast að koma þessum tekjuaukafrv. fram án stuðnings jafnaðarmanna, eftir því sem íhaldsmenn hafa talað um þessi frv. Samt eru tekjuaukafrv. ekki í samræmi við skoðun jafnaðarmanna, heldur þvert á móti. En þeir skilja nauðsynina á því að afla ríkissjóði tekna og hafa svo ríka ábyrgðartilfinningu, að þeir láta það sitja í fyrirrúmi. Þegar svo er, er ekki að furða, þótt þeir vilji einhverju ráða, og þegar Framsóknarflokkurinn er búinn að fá fullnægt höfuðtilgangi sínum, er ekki nema firra að halda í einstök atriði. Jeg veit, að hv. þm. er svo mikill samningamaður, bæði í einkalífi sínu og pólitík, að hann skilur, að það verður að laga ýmislegt til, svo að aðalatriðin nái fram að ganga, og það er venja að taka það næstbesta, þegar það besta fæst ekki.

Hv. þm. talaði um það, að hættulegt væri, að minni flokkarnir rjeðu svo miklu. En þessi orð eiga ekki frekar við þetta en flokkapólitíkina í landinu. Eins og henni er nú komið, getur altaf verið hætt við því, að það fari í gegn, sem meiri hl. er á móti. Jeg er ekki kunnugur í Íhaldsflokknum, en jeg veit, að þar er ýmislegt gert að flokksmáli, þó að sumir sjeu á móti. Meiri hl. ræður og kemur því í gegn. Jeg vil ekki ræða um kosti og galla flokkapólitíkurinnar, en þetta yrði alveg eins, þó að Íhaldsflokkurinn sæti við völd.

Hv. þm. sagðist hafa haldið, að jeg væri svo mikill skapfestumaður, að jeg mundi ekki beygja mig svona. Jeg held, að við sjeum báðir svo miklir samningamenn, að við tökum það næstbesta, þegar það besta fæst ekki.

Hv. þm. Dal. talaði af miklum eldmóði um það, að varhugavert væri að auka skattana, vegna þess að gjaldþol þjóðarinnar gæti brostið. Það er líka varhugavert að hrúga útgjöldunum inn á fjárlögin. Auðvitað eiga allir þm. sök á því, en jeg veit ekki betur en að hv. þm. Dal. eigi sinn fulla skerf. Hann talaði af jafnmikilli rökfimi fyrir fjárveitingu til síns hjeraðs eins og nú á móti sköttunum. Jeg býst ekki við því, að hv. þm. Dal. hafi gengið þess dulinn, að það þyrfti tekjur til að greiða þetta. En það er undarlegt að vilja hrúga útgjöldum inn á fjárlögin, en vera á móti því, að sjeð sje fyrir tekjum til að greiða útgjöldin.