25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

29. mál, jarðræktarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er nú svo, því miður, að enginn kann tveim herrum að þjóna. Jeg hefi verið fast bundinn við umr. í hv. Ed. og því ekki getað verið hjer. Einkum sakna jeg þess að hafa ekki getað hlustað á ræðu háttv. frsm. og ástæður nefndarinnar fyrir brtt. hennar við 11. gr. Um hana er það að segja, að nefndin viðurkennir að vísu og felst á aðaltilgang stj., að leggja verulega af mörkum til. verkfærakaupa, og við þessa formsbreytingu, sem nefndin vill gera, hefi jeg í sjálfu sjer ekki margt að athuga, en hinsvegar er mjer það fullljóst, að með þessari breytingu verður það fje talsvert minna, sem til þessa verður veitt, en eftir frv. stj., og árangurinn þá auðvitað minni. Þetta mundi nema um 65–70 þús. kr., en eftir stjfrv. miklu, miklu meiru.

Við fljóta athugun tillögunnar virtist mjer og, að nefndin vilji beina starfsemi sjóðsins meir yfir á fjelögin en einstaklingana. En það var fyrst og fremst tilætlun frv. að hjálpa til að hestaverkfærin yrðu til á sem flestum heimilum og vinna með þau heimilisvinna. En jeg misti af skýringu hv. frsm. um þetta.

Annars er þess að gæta, að þetta er ekki nema 2. umr. málsins, og má því athuga þetta atriði frekar til 3. umr. En um þetta vildi jeg gjarnan heyra það, sem hv. frsm. nefndarinnar sagði.

Jeg vildi aðeins geta komið þessum athugasemdum að nú, en vildi síðan gjarnan geta talað um það við hv. frsm. nefndarinnar milli umræðna, hvernig á að koma þessu fyrir.