25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

29. mál, jarðræktarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get upplýst, að það mun ekki vera búið að mæla upp alt ræktað land kringum kauptún landsins; það hefir hvorki unnist tími nje fje til þess. Hinsvegar hefir Búnaðarfjelag Íslands látið athuga þetta, og þar, sem þess hefir sjerstaklega verið óskað, hefir Búnaðarfjelagið

sent mann til að framkvæma þetta, og mjer er sjerstaklega kunnugt um það, að úr kjördæmi hv. þm. (HG) hefir komið ósk um að gera þetta, og hygg jeg, að Búnaðarfjelagið hafi unnið það, sem óskað var þar, en það hefir ekki komist yfir að gera allar mælingar kringum landið.

Við hinni fyrirspurninni svaraði hv. þm. sjer sjálfur, með því að vitna í það, sem hann hafði eftir hv. 1. þm. Skagf. um þetta. En það hefir enn ekki komið neitt til kasta stjórnarinnar að ákveða um það, hvort bæjarfjelög ættu að njóta styrks. Til Klepps og Vífilsstaða hefir ekki verið borgaður styrkur, og Akureyri hefir heldur ekki fengið styrk.

Ef hv. þm. vill láta breyta þessu, þá er það rjetta leiðin að breyta lögunum, því að þar sem fyrir liggur úrskurður fyrri stjórnar um þetta atriði og þar sem nú er verið að endurskoða lögin, og verði þeim ekki breytt, þá verður að skoða það sem staðfestingu á þeim „praksis“, sem þegar hefir verið, svo að ef hv. þm. (HG) vill láta breyta þessu, þá er sjálfsagt fyrir hann að bera fram brtt. við lögin.