25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

29. mál, jarðræktarlög

Lárus Helgason:

Jeg heyrði, að hv. 2. þm. Skagf. (JS) ljet í ljós óánægju sína yfir því, að búnaðarfjelögin mistu af þeim litla styrk, sem þau hafa fengið. Eins og hv. frsm. nefndarinnar tók fram, þá var nefndinni það ljóst, að svona mundi geta farið. En eins og hv. frsm. líka tók fram, þá tók nefndin það ráð, heldur að offra þessu, að láta styrkinn, til þess að geta verið með í því að stofna verkfærasjóð, til þess að verkfæri gætu aukist meðal landsmanna, heldur en að fara að klípa af þeim styrk, sem áður var búið að ráðgera. Jeg geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. Skagf. sjái, að hjer er um svo ákaflega lítinn styrk að ræða, síðan jarðræktarlögin komu til, að það má segja, að hann hafi verið lítils virði fyrir búnaðarfjelögin.

Hafi það nú víða verið svo, sem hv. þm. (JS) fók fram, að fjelagsmenn hafi ekki borgað meira í sjóð búnaðarfjelags síns en 2–3 kr. á ári, þá er auðsætt, að ekki hefir verið miklu úr að spila til þess að kaupa að vinnu. Annars er mjer kunnugt um það, að síðan styrkurinn varð svona lítill til búnaðarfjelaganna, hafa árstillögin verið frá 10–15 kr. frá hverjum fje lagsmanni. Annars hefði verið ómögulegt, að vinna gæti fengist að með tilstyrk búnaðarfjelaganna, og þá hefir mjer virst, að þessi styrkur væri svo hverfandi lítill. En það er alveg rjett, sem hv. þm. (JS) tók fram, að þessi styrkur var sannarlega líftaug búnaðarfjelaganna, áður en jarðræktarlögin komu í gildi. En nefndinni finst, að það verði miklu meiri arðsvon af, að unnið væri að því, að mönnum gæfist kostur á að geta fengið verkfærin ódýr, því að það var svo, að minsta kosti fyrir þeim, sem í nefndinni eru, að þeim er ekki kunnugt um, að það sje víða á landinu svo ríflegt fyrir með verkfæri, að ekki þyrfti við að bæta. Þvert á móti býst jeg við því, og heyrði það sama á meðnefndarmönnum mínum, að þar sje einmitt mjög ábótavant því nær alstaðar, og þess vegna er ekki hægt að segja það með fullum rjetti, að það sje ekki nauðsynlegt að gera mikið til þess, að verkfæri geti komið sem víðast. En það verður ekki gert nema með því að stofna nýja sjóði, sem hjer er ráð fyrir gert.

Það má auðvitað lengi um það deila, hvor aðferðin betri verður, en jeg fyrir mitt leyti lít svo á, og jeg býst við, að það sje svo fyrir nefndinni líka, að menn muni ekki finna neitt verulega til þess, þó að þetta litla gjald, sem búnaðarfjelögin fá, hverfi, þegar menn vita það um leið, að jarðræktarlögin ljetta svo vel undir með þeim mönnum, sem nokkuð vinna. Jeg býst þá við, að búnaðarfjelögin hljóti að halda áfram með óskertum kröftum, hvort sem þau fá þennan styrk eða ekki, því að sum árin hefir hann ekki verið nema sem svarar fimm aurum á dagsverk. Nú eru áætlaðar í fjárlögunum 15000 kr. til þessa, og verður það ekki mikið til þess að skifta á milli allra búnaðarfjelaga í landinu.

Jeg get ekki betur sjeð en að sjóðsstofnun þessi sje bráðnauðsynleg og að það hljóti svo að fara, að betra sje að missa af þessum litla styrk til búnaðarfjelaganna heldur en að verkfærakaupasjóðurinn verði mjög ómyndarlegur og þá kraftlaus.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál; hv. frsm. nefndarinnar hefir þegar svarað því, sem jeg álít, að þörf hafi verið að svara fyrir nefndarinnar hönd að svo komnu.