25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

29. mál, jarðræktarlög

Halldór Stefánsson:

Það hefir nú nokkuð upplýst sú spurning, sem jeg bar fram, einkum af því, sem þeir hafa sagt, hv. 1. þm. S.-M. og hv. 2. þm. Eyf. Það virðist þá nokkuð bert, að það er engin föst hugsun fyrir því, að afgjaldið eigi að hækka í alveg ákveðnu hlutfalli við framlagið til jarðabóta. Það virðist eiga að vera komið undir happi og hendingu. Það ætti þá helst að vera um prestssetursjarðirnar. En engin föst hugsun liggur þó þar á bak við heldur, eftir því sem mjer skilst.

Jeg bar fram þá spurningu hjer fyr, að ef svo væri ástatt eins og er um þetta, hver væri þá ástæðan til að borga svona miklum mun hærra fyrir jarðræktarframkvæmdir á þeim opinberu eignum heldur en á öðrum eignum, sem frv., og þó einkum lögin gera ráð fyrir. Jeg hygg, að það hafi eftir lögunum verið eitthvað nálægt sexfalt meira greitt fyrir jarðræktarframkvæmdir á opinberum eignum en öðrum. En eftir frv. og till. nefndarinnar lækkar það í kringum helming. Nú kem jeg ekki auga á, að ástæða sje til að gera neinn mun á þessu. Og það hafa heldur ekki við umr. verið teknar fram þær ástæður, sem hjer ættu að liggja til grundvallar. Leiguliðar á einstakra manna eignum eru alveg jafnt settir gagnvart eigendum eins og leiguliðar á opinberum eignum. Það virðist því óþarft að verðlauna hærra jarðabótastarfsemi á þessum eignum en öðrum.