29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1929

Haraldur Guðmundsson:

Jeg skal nú ekki auka eldana. En hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) gaf mjer tilefni til athugasemda. Hann gat þess nú, að hann hefði skrifað öllum nýjum kjörstjórnum brjef og leiðbeiningar um kosninguna. Nú hefðu menn getað haldið, að það hefði mátt treysta þessum ágætu kjósendum í Norður-Ísafjarðarsýslu til þess að velja ekki aðra í kjörstjórnir en þá, sem bæru skyn á landslögin, og að þessi brjef hv. þm. því hefðu átt að vera óþörf. Enda virðist engin ástæða fyrir hann til að miklast af árangri þeirra. Þá bar hv. þm. fram nokkuð nýstárlega kenningu hjer. Hann hjelt því fram, að það hefði verið svo fjarri því, að Bolvíkingar hefðu talið rannsóknina nægilega, að þeir hefðu viljað fá meiri rannsókn. Þessi rannsóknarþorsti lýsir sjer á nokkuð einkennilegan hátt, þegar þeir hafa í hótunum við rannsóknardómara um að flytja hann burtu nauðugan. Sje það satt, að þeir hafi ennfremur gefið í skyn, að þeir mundu ekki hafa harmað það, þótt rannsóknardómarinn hefði fallið niður á milli skipsins og brimbrjótsins fræga, verð jeg að segja, að rannsóknarþorstinn kemur mjer undarlega og óhuggulega fyrir sjónir.

Þá er skýrslan undir eiðstilboð, sem hann í fyrri ræðu sinni kvaðst hafa tekið af einum manna þeirra, sem neituðu að aðstoða rannsóknardómarann við handtöku hreppstjórans. Þótti mjer hann hafa misskilið stöðu sína, er hann „heimtaði“ menn á sinn fund og krafðist skýrslna af þeim undir eiðstilboð. Hann hefir nú dregið úr þessum ummælum með orðalaginu á seinni ræðu sinni. Nú sagðist hann bara hafa „náð“ í einn manninn. En talsverður munur er á því og hinu, að hann hafi „heimtað“ hann á sinn fund, eins og hv. þm. sagði í ræðu sinni. Annars sje jeg ekki, að þetta sje neitt innlegg í málinu. Mjer er ekki kunnugt um, að þessi eiðfesta skýrsla, sem hv. þm. N.-Ísf. tók sjer dómaramyndugleik til að afla, hafi upplýst nokkurn hlut í Hnífsdalsmálinu, sem háttv. þm. þykist hafa svo brennandi áhuga á að upplýsa. Þetta var máske meinlaust hjá hv. þm., en alveg gagnslaust var það áreiðanlega fyrir rannsókn málsins, nema ef það hefir getað orðið einhverjum til ánægju og athlægis.

Þegar talað er um kosninguna 1924 og lögbrot þau, er hjer á Alþingi voru framin í sambandi við hana, er aðstaða hv. þm. N.-Ísf. svipuð og Adams forðum í Paradís. Hann át af eplinu. Því að þótt það væri rjett, að einhver annar hefði rifið upp atkvæðaumslögin, þá er hv. þm. honum algerlega meðsekur í því, og hann skýrði þingheimi frá því, hvern kjósandinn kaus; það sanna þingtíðindin. Sá eini, sem andmælti þessu atferli í kjördeildinni, var núv. hv. 2. þm. Árn. (MT). Jeg geri enda ráð fyrir, að hv. þm. N.-Ísf. hefði varla hlýðnast því að vera frsm. og segja frá þessu, ef honum hefði ekki fundist það gott og blessað. Hv. þm. ber ekki heldur á móti því, að það hafi verið brot á þeirri leynd, er vera á yfir atkvæðum manna, að kjördeildin opnaði þetta umslag í heimildarleysi og skýrði frá innihaldi þess. Hv. þm. afsakar sig með því einu, að hann. eigi ekki höfuðsök á þessu. Það er ósannað. Jeg tel hann eiga fullkomlega stærstan hluta af sektinni. Og þetta er alveg óafsakanlegt brot.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði verið að sverja fyrir afskifti af þessari reitakonu og þvottakonu, sem hann talaði um. Jeg er nú miklu kvenhollari en svo, að mjer detti í hug að sverja fyrir kunningskap við konur. En þessari sögu hlýt jeg þó algerlega að neita. Jeg held, að jeg hafi áðan skýrt á skynsamlegan hátt uppruna þessarar sögu, ef hún er þá ekki orðin til aðeins í heilabúi hv. þm. N.-Ísf.

Hv. þm. kvað mig hafa talað af vanþekkingu um rannsókn bæjarfógeta á atkvæðaseðli konunnar, sem sótt var inn í Djúp og ljet bæjarfógeta opna atkvæðaumslag sitt. Þetta er alrangt. Jeg ásakaði bæjarfógeta ekkert nje fann að gerðum hans, skýrði aðeins frá því, að ekki væri sannað, að rithönd konunnar hefði verið á seðlinum. Jeg var einn af þeim, sem fóru þess á leit við bæjarfógeta, að hann fengi leyfi konunnar til að skoða seðilinn, svo að hann gæti legið fyrir sem gagn í málinu, ef hann þætti grunsamlegur. Jeg sagði einungis, að ekki lægi fyrir neitt sýnishorn af rithönd konunnar, og er því ekki fullsannað, að hjer sje um sama seðil að ræða. — Mitt nafn var að vísu á seðlinum, og því datt mjer fyrst í stað ekki í hug, að hjer væri neitt athugavert. En það, sem síðan hefir uppvíst orðið, sýnir, að vel geta hafa verið þarna brögð í tafli.

Hv. þm. sagðist ekki vilja ota kjósendum sínum út í nýjar kosningar, því að hann geti ekki búist við að verða einn í kjöri. En háttv. þm. fór sjálfur mjög lofsamlegum orðum um hreysti og skapfestu sýslubúa og drap á Skúlamálið í því sambandi, — sagði, að þarna væru karlar, sem ekki ljetu kúga sig. Þá finst mjer hann varla hafa ástæðu til að vorkenna þeim að fara á kjörfund, þótt að vetrarlagi sje. Og varla telja þeir það eftir sjer sjálfir, ef marka má talið um hinn mikla ástarþokka, er þeir eiga að hafa á þingmanni sínum. Jeg sje ekki neitt á móti því, að kosning mætti fara fram aftur í kjördæminu. Ef illviðri væri á kjördag, þá mætti fresta henni. (JAJ: Illviðrin standa oft meira en einn og meira en tvo og meira en tíu daga fyrir vestan). Nei, nú held jeg að hv. þm. ætli að fara að kríta nokkuð liðugt.

Hv. þm. spurði, hvers vegna kosningin hefði ekki verið kærð. Um það hefir verið rætt áður, og sýnist óþarft að fara frekar út í það. Þó sagði hv. þm. það nú til viðbótar, að hæstv. dómsmrh. hefði sagt vestra, að ekki væri hægt að ógilda kosninguna nema hún væri kærð, En enginn hefði fengist til að kæra. Þetta eru algerð ósannindi. Jeg átti einmitt tal um það við hinn frambjóðandann úr kjördæminu, hvort ekki mundi rjett að kæra kosninguna, og kom okkur ásamt um, að rjett mundi að gera það ekki. Vitanlega var auðvelt að fá tugi eða hundruð kjósenda til að skrifa, undin kæru. — Jeg skal nú endurtaka rökin, sem lágu til þess, að við kærðum ekki. Formgallar voru að vísu margir á kosningunni, en þó var ekki líklegt, að hún yrði ónýtt fyrir þær sakir, vegna atkvæðamunarins. Hinsvegar var Hnífsdalsmálið komið í hendur hins opinbera. Mátti því ætla, að Alþingi væri það mál eins kunnugt og kjósendum vestra. Og auðvitað var Alþingi skylt að taka það mál til athugunar í sambandi við kosninguna, áður en hún væri tekin gild. Jeg hefi áður sýnt ljóslega fram á, að slíkir glæpir eiga að ónýta kosninguna, og fer ekki út í það að sinni.

Háttv. þm. bar á móti því, að ekki hefðu verið nema 22 þm., sem vildu hleypa honum inn. Vildi bersýnilega ásælast þá, sem ekki greiddu atkv. Í því efni get jeg vísað til ræðu þeirrar, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) hjelt um afstöðu sína og þeirra annara, er hjá sátu. Ef hv. þm. N.-Ísf. hefir skilið hann svo, að hann vildi leggja blessun sína yfir kosningu hans, þá er skilningi hans annan veg farið en mínum og flestra annara hv. þdm., þori jeg að fullyrða.

Jeg get ekki annað en glaðst yfir því, hve kennarahæfileikar mínir sýnast vera betri miklu en hv. þm. N.-Ísf. A. m. k. ætla þeir að bera betri ávöxt en kenslutilraunir hans á kjörstjórnunum. — Jeg kendi honum áðan nokkurn kafla úr kosningalögunum og stjórnarskránni, og hefir hann mentast svo við það, að hann breytti „tilboði“ sínu til hæstv. dómsmrh. strax í miklu sæmilegri átt.

Mjer þætti ekki eiga illa við að víkja að hæstv. stjórn ofurlitlu eldhússpjalli. Jeg vil aðeins segja, að því fer mjög fjarri, að öll verk hennar lofi hana mikið. En fyrv. stjórn gerir þessa góða. Alt er „relativt“ í þessum heimi, líka hæstv. stjórn. Gleggsta dæmið til samanburðar er afskifti beggja af Hnífsdalsmálinu. Þar sjest munurinn. Jeg nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. stjórn röggsemina í því máli, — þakka henni, að hún fetar ekki í fótspor fyrirrennara síns.