05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

29. mál, jarðræktarlög

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg skal aðeins lítillega minnast á brtt. á þskj. 384, frá okkur þremur, mjer og hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Eftir till. okkar er ætlast til, að styrkurinn samkv. II. kafla jarðræktarlaganna lækki um 1/10 hluta, sem gangi til verkfærakaupasjóðs, í stað þess, að eftir frv. stj. var ætlast til, að 1/5 hluti styrksins gengi til þessa. Jarðabætur hafa nú aukist svo mjög og eru sífelt að aukast, og ekki líklegt að líði á löngu, þangað til styrkurinn nemi jafnmikilli upphæð eftir till. okkar. Þó að nú tvímæla kunni að orka um starfsemi búnaðarfjelaganna úti um land, þá er það víst, að það hefir leitt svo mikið gott af mörgum þeirra og að þau eru nauðsynlegur liður í framfaramálum bændanna, að ekki er vert eða rjett fyrir löggjafarvaldið að draga úr starfsemi þeirra. Það hafa sumir fundið þessu til foráttu, að það dragi úr áhuga sumra þeirra, sem eru að leggja út í jarðræktarframkvæmdir. Þó svo væri, sem jeg dreg mjög í efa, þá vegur það fyllilega upp á móti því, að þetta gerir bændum alment mögulegt að eignast jarðabótaverkfæri. Bændur þurfa nauðsynlega að eignast jarðabótaverkfæri, og það verður ekki á annan hátt betur stuðlað að því en þennan. Fyrst og fremst þurfa þeir að læra að fara með þessi áhöld. Um það hefir verið talað áður, en nú liggur hinn liðurinn fyrir, að útvega þeim þau. Nú er það svo, að þeir menn, sem fengju þennan styrk, sem hjer er dregið af, mundu ef til vill ekki fá hitt til verkfærakaupa, en það verður þá til þess að hjálpa hinum áfram, sem einhverra ástæðna vegna hafa orðið á eftir.

Brtt. okkar er því að nokkru leyti sameining á till. hæstv. stj. og landbn., og jeg held, að í henni sje reynt að sameina það besta úr þeim báðum.