06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. Menn munu hafa búist við því, eftir því hvernig umræðurnar enduðu í gær, að nú sýndust þrjú sverð á lofti. En það hefir orðið að samkomulagi milli þeirra aðilja, sem hjer greinir á, að landbn. flytur brtt. á þskj. 393 um, að lögákveðinn. Sje nokkur styrkur til hreppabúnaðarfjelaganna. Þar sem það hefir vakað fyrir hv. andmælendum mínum að tryggja búnaðarfjelögum nokkurt fje, og þar sem landbn. hefir talið sjálfsagt, að hver fjelagsmaður legði nokkuð af mörkum af frjálsum vilja, er aðstaða okkar orðin svo lík, að ekki er ástæða til frekari deilu. Eftir því sem jeg veit best, hafa þeir, sem standa að tlllögunni á þskj. 384, talið þessa lausn heppilega.

Landbn. láðist í tæka tíð að gera grein fyrir villu í 5. gr. En leiðrjetting er á þskj. 389. Jeg ætla, að það hafi verið hv. 2. þm. Skagf., sem við 2. umr. drap á, að heppilegast og einfaldast væri að hafa flokkana þrjá. Landbn. hafði áður flutt brtt. um að hafa gjaldið 80 aura, en tók hana aftur. Nú flytur nefndin tillögu aftur um að hafa greiðsluna eina krónu. Þar sem málið horfir svo við, er ekki ástæða til að fara út í þau atriði, sem ágreiningur varð um í gær. En jeg vil segja vini mínum, hv. þm. Borgf. (PO) það, að þegar hann á í höggi við mig, má hann gjarnan víkja að mjer persónulega. Skinn mitt er svo þykt, að jeg býst við, að jeg þoli þær örfar, en jeg vil biðja hann að hlífa hjeraðsbúum mínum saklausum við hnútuköstum, þó honum renni í skap við mig. Hann gerði að vísu ekki mikið að því, en jeg kunni því samt afarilla. Út af því, sem hv. þm. sagði, má hann minnast þess, að á sama tíma var reist á kostnað landsins íbúðarhús í Borgarfirði fyrir aðeins eitt heimili, sem áætlað var á 60–80 þúsundir, en fór upp í nærri ¼ miljón. Það má ekki kenna hjeraðsbúum um ósjálfráð atvik.