06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

29. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson:

Jeg vil benda á það, að brtt. 324 mundi enn hafa formgalla, þrátt fyrir það, þó brtt. hv. 1. þm. S.-M. yrði samþ. Mjer skilst, að á eftir „I. 9. gr. orðist svo“ hefði átt að koma: „27. gr. orðist þannig:“, þar sem 9. brtt. frv. á við 27. gr. jarðræktarlaganna sjálfra. Þetta er nú að vísu smáatriði. En jeg tel illa farið, ef fara á að lækka þennan styrk til landseta ríkisins meira en gert er ráð fyrir í frv. Þetta ákvæði jarðræktarlaganna hefir hrundið á stað talsverðum jarðabótum á landssjóðsjörðum, og er ilt, ef kipt væri úr þessu aftur. Arður af þessum jarðabótum velflestum er seinn að skila því fje, sem í þær er lagt, enda munu þeir, sem sjálfir eiga jarðirnar, líta fult svo mikið á verðhækkun jarðarinnar vegna umbótanna eins og arðinn af sjálfum umbótunum í svip. Það er nú mjög augljóst, hverju þetta munar fyrir þessa leiguliða. Styrkurinn er ákveðinn í frv. kr. 3,50 eins langt og leigur og landskuld ná, en samkv. till. hv. 1. þm. N.-M. verður hann ekki nema nál. kr. 1,50 á dagsverk að meðaltali. Jeg hefði fylgt till. þeirra þremenninganna á þskj. 384, en þar sem fengist hefir samkomulag við nefndina, skal jeg ekki um það fást, þó ekki sje það komið í fult horf, þar sem styrkurinn til búnaðarfjelaganna verður lægri en áður, eða 13 þús. í stað 15 þús. kr., eftir því sem mjer reiknast eftir upplýsingum í greinargerð stjfrv. Jeg get því felt mig við það, þar sem samkomulag er ávalt gott. En sjerstaklega vil jeg óska þess, að brtt. á þskj. 324 verði feld.