06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

29. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson:

Ef jeg hefði verið einn um þessa skoðun, sem jeg hjelt fram áðan, þá gæti jeg freistast til að halda, að jeg misskildi þetta, því þá mætti jeg halda, að bændur vissu betur um þetta en jeg. En þar sem bændur hafa lýst sömu skoðun á þessu og jeg, þá vil jeg halda því fram, að hvorki jeg nje þeir hafi misskilið þetta. Hv. 1. þm. S.-M. vildi bjarga sínum málstað með því að bera saman tvo bændur, annan leiguliða ríkisins, en hinn leiguliða á bændaeign, og áleit, að leiguliði ríkisins stæði betur að vígi en hinn, með því að hann fengi kringum kr. 1,50 fyrir hvert dagsverk á móti kr. 1,00. Það má nú gera ýmislegan samanburð á þessu. T. d. að bera leiguliða ríkisins saman við sjálfseignarbændur, sem fá jarðræktarstyrk, og eiga svo alt saman. Jeg veit nú ekki, hve mikið leiguliðar ríkisins gera að jarðabótum. Líklega hefir það nú ekki verið mikið. (Forsrh. TrÞ: Það er að vaxa). — Já, einmitt ákvæði jarðræktarlaganna munu vera farin að koma rekspeli á þetta, og væri leitt, ef það nú stöðvaðist aftur. Jeg veit til þess, að sumir leiguliðar bænda fá uppbætur frá jarðareiganda og standa því ekki svo illa að vígi í samanburði við hina. Og það er óhæfa að búa svo að leiguliðum ríkisins, að þeir dragist aftur úr og jarðirnar níðist niður. Jeg held, að hjer sje því ekki um neinn misskilning að ræða, heldur þá bara skoðanamun.