06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

29. mál, jarðræktarlög

Hákon Kristófersson:

Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji gera lítið úr orðum hæstv. atvmrh., þótt hann sýni áhuga fyrir ræktun kaupstaðanna, eins og kom í ljós í ræðu hans, heldur álít jeg, að þörfin sje jafnknýjandi heima í sveitunum. En það er viðvíkjandi till. á þskj. 324, sem jeg vildi segja örfá orð. Það lítur helst út fyrir, að sumir hv. þm., og þar á meðal hæstv. atvmrh., geti ekki fallist á hana. Jeg verð hinsvegar að geta þess, að jeg er fyllilega sammála hv. flm. till., hv. 1. þm. N.-M., að þar sje svo vel gert við landsetana, ef hans till. næði fram að ganga, að tæplega sje forsvaranlegt vegna ríkissjóðs að fara lengra. Hv. 1. þm. Reykv. gat þess, að sumstaðar væri svo háttað, að menn fengju endurgjald fyrir unnar jarðabætur á jörðum einstaklinga. Það má vel vera, að þessa sjeu dæmi.

Aftur er mjer kunnugt um það, að þegar einstaklingar byggja jarðir sínar, er það undantekningarlaus regla, að það sje tekið fram í byggingarbrjefi, að ábúanda sje skylt að inna af hendi árlegar jarðabætur.

Jeg verð að segja, að mjer finst það harla ótrúlegt, að ábúandi finni enga hvöt hjá sjer til þess að hlynna að ábýli sínu, nema sjerstakt gjald komi fyrir frá jarðareiganda. Eftir því sem mjer er kunnugt, — og svo mun víðast hvar háttað, — er það almennast, að jarðir eru bygðar æfilangt. Þar af leiðandi segir það sig sjálft, að jarðabætur, sem unnar eru og ábúandi hefir notið árangurs af, segjum 15–20 ár, eru búnar að borga honum sína fyrirhöfn. Mjer kemur ekki til hugar að rengja það, sem hæstv. atvmrh. sagði, en það er sannarlega raunalegt að heyra, ef satt er, að þeir amlóðar hafi búið á prestssetrunum, að þeir hafi dregist aftur úr með jarðabætur á jörðum sínum vegna þess að þeir áttu ekki von á endurgjaldi. Hvað skal þá segja um aðra, þá er fátækastir eru?

Ef umbætur á jörðum ríkissjóðs verða aftur úr með því fyrirkomulagi, sem till. á þskj. 324 gerir ráð fyrir, þá er það aðeins vegna þess, að á þeim búa ekki jafnhæfir menn til búskapar og annarsstaðar. Annars er það minni hlutinn af jörðum landsins, sem ríkissjóður á, og því tel jeg engu minni þörf á að hlynna að jarðabótum annarsstaðar. Enda fullkomið ranglæti að gera mun á endurgjaldi frá ríkisins hálfu fyrir unnar framkvæmdir eftir því, hver er eigandi jarðanna. Jeg heyri sagt, að samkomulag sje fengið milli háttv. landbn. og flm. till. á þskj. 384. Það er altaf gott, þegar hægt er að semja frið, ef hann byggist á sanngjörnu samkomulagi. Mun hinn fengni friður, sem hjer hefir verið saminn, byggjast á till. á þskj. 393. Jeg vil taka það fram, að jeg hafði hugsað mjer að fylgja till. þeirra þremenninganna, en úr því að þeir hafa fallið frá sinni till. og hallast að till. á þskj. 393, er ekkert við því að segja. Hinsvegar vil jeg leyfa mjer að vænta þess, að hv. deild styðji till. á þskj. 324.