06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

29. mál, jarðræktarlög

Lárus Helgason:

Jeg þóttist hafa talað svo ljóst áðan, að jeg gæti ekki verið misskilinn. Ekki hefi jeg heldur sannfærst við tölur háttv. þm., enda hljóta þeir að vita, að það er alt annað að vinna á eignarjörð sinni eða jörð, sem maður á ekki. Jeg vil taka undir það, sem háttv. 1. þm. Reykv. sagði, að arðurinn af jarðabótavinnu er ekki svo fljóttekinn, að rjett sje að gera ráð fyrir miklum arði á fyrstu árum. Annars hjelt jeg, að ekki yrði óþarflega vel með þessa landseta farið fyrst um sinn, enda gott, ef það gæti orðið til þess, að jarðirnar bötnuðu að miklum mun. Það væri gott spor í þá átt, sem hjer er stefnt að. Þar að auki er hægur hjá að breyta þessu ákvæði, ef það kæmi í ljós í framtíðinni, að óþarflega vel væri með menn þessa farið. Jeg býst við, að ekki sje hægt að bera á móti því, að menn þeir, sem hjer er átt við (prestarnir), sjeu yfirleitt mjög fátækir, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem þeir koma venjulega með stóra skuldabyrði á bakinu frá námsárunum og tapa mörgum sínum bestu árum frá að safna fje. Þessir menn þurfa því engir amlóðar að vera, eins og hv. þm. Barð. hjelt fram, að mjer skildist, þótt þeim gangi erfiðlega að sitja jarðirnar, þegar þeir byrja búskap sinn starfinu ókunnir með tvær hendur tómar. Þess vegna er miklu rjettmætara að veita mönnum þessum ívilnunina á meðan jarðirnar eru að meira eða minna leyti í órækt. Fyrir því legg jeg eindregið til, að 9. gr. frv. verði samþ., en brtt. á þskj. 324 verði feld, og vænti jeg þess, að hv. deild muni sýna, að þessi skoðun mín er rjett.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Vænti jeg, að hv. deild sjái, að hjer er ekki um misskilning að ræða, heldur er það skoðun okkar landbn.-manna, að ekki megi ver fara með þá, er búa á opinberum jarðeignum, en gert er ráð fyrir í 9. gr.