29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1929

Hákon Kristófersson:

Jeg mótmæli algerlega þeim orðum hæstv. dómsmrh., að jeg sje honum sammála um Thorcilliisjóðinn. En jeg er honum sammála um það, að ekki beri að raska vilja gefendanna að slíkum sjóðum. Jeg lagði áherslu á þetta sakir þess, að nokkur uggur var í mjer um það, að farið yrði að hrófla við gjafabrjefi Herdísar Benedictsen. En nú sje jeg greinilega, að hæstv. dómsmrh. lætur sjer ekki til hugar koma slíka ósvinnu.

Svar hæstv. ráðh. við hinni meinlausu fyrirspurn minni um heiðursmanninn Björn Þorláksson og laun hans var hvorki hrátt nje soðið. Það er ekkert svar að segja, að hann hafi hálf laun á móts við suma starfsmenn í áfengisversluninni. En það er vitað, að gamli maðurinn hefir 400 kr. á mánuði, og er því hálfdrættingur við hina ógurlegu menn á varðskipunum, skipstjórana. Og jeg held, að engum detti í hug, að hann geri fjórðung af því gagni, sem þeir gera, hvað þá helming. — Hæstv. ráðh. gerði gys að upplestri mínum úr „skýrslu“ þessa dánumanns. En jeg bar þetta aðeins fram máli mínu til sönnunar. En af orðbragðinu sýndist hæstv. ráðh. vera sjerlega hrifinn, enda er það svo líkt hans eigin tali, að vart má greina á milli. Það eru t. d. ekki margir dagar síðan hæstv. ráðh. var að minna einn hv. þm. á, að nú væri hann orðinn gamall og væri eins gott að fara að búa sig undir dauðann.

Vona jeg, að hæstv. ráðh. taki mjer ekki illa upp, þótt jeg hafi viljað leiðrjetta sum af ranghermum hins virðulega vinar míns.