24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv. er hingað komið frá Nd. Var það undirbúið af milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum og er nú borið fram sem stjfrv., þó nokkuð breytt frá því, sem nefndin lagði til.

Eins og frv. er hingað komið er gerð grein fyrir breytingum þeim, sem það gerir á núgildandi jarðræktarlögum, í nál. á þskj. 545. Þær eru aðallega þessar: Í fyrsta lagi er styrkurinn til jarðabóta ákveðinn föst upphæð á hvert dagsverk, en samkvæmt gildandi lögum er styrkurinn ýmist 1/3 eða ¼ af þeirri upphæð, sem dagsverkið er metið. Þetta hefir verið framkvæmt þannig, að fyrir ¼, dagsverks hefir verið greitt kr. 1,00, en fyrir 1/3 kr. 1,50. Nú er þessi styrkur ákveðin föst upphæð, — sú sama og greidd hefir verið undanfarið.

Annað nýmæli frv. er það, að taka 5% af styrk hvers jarðabótamanns og láta það ganga til búnaðarfjelags þess, er hann er meðlimur í. Á það að hafa umráð yfir þessum peningum og nota þá í sameiginlegar þarfir fjelagsmanna.

Þriðja nýmæli frv. er það, að veita styrk til votheystófta. Er hann kr. 0,50 á dagsverk, eða helmingi lægri en veittur er til túnræktar.

Þá hefir verið felt niður það ákvæði gildandi laga, að undanskilja styrk 10 dagsverk fyrir hvern verkfæran heimilismann. Er nú veittur styrkur á allar jarðabætur, án tillits til fjölda verkfærra heimilismanna. En aftur á móti fá engir styrk fyrir færri en 5 dagsverk.

Enn hefir verið breytt ákvæðum laganna um jarðabætur landseta á þjóðjörðum og kirkjujörðum. Er heimilað að ákveða í byggingarbrjefi, að landsetar vinni af sjer afgjaldið með jarðabótum.

Loks er síðasta nýmælið, um stofnun verkfærakaupasjóðs. Hann á að mynda svo, að ríkissjóður greiði í hann 10 aura á hvert unnið dagsverk. Auk þess leggur ríkissjóður til 20 þús. kr. tillag árlega. Þessi sjóður á að vera sjereign búnaðarfjelaga um land alt. Skal hann styrkja bændur til verkfærakaupa. Þetta er að mínu áliti merkilegasta nýmæli frv., því að jeg lít svo á, að nú beri mest nauðsyn til þess, að hestaverkfæri til jarðyrkju komist inn á hvert heimili. Jeg held, að það hafi einna mest tafið fyrir framtakssemi og framförum í ræktun, að áhöld hefir vantað og kunnáttu til að fara með þau. En með áhöldunum kemur kunnáttan. Ef það tekst að koma þessum áhöldum inn á hvert heimili, þá held jeg, að það sje meira um vert heldur en veita styrk á hvert jarðabótadagsverk.

Landbn. hefir athugað frv. og gerir á því nokkrar breytingar. — Fyrsta breytingin er þess efnis, að hámark er sett á styrk þann, er hver einstakur bóndi getur fengið. Samkvæmt núgildandi lögum og frv. geta menn fengið kr. 1,00 styrk á hvert dagsverk túnræktar, hvað mikið sem unnið er. Sama regla gildir um haughús og safnþrær. Nefndin leggur til, að þetta verði takmarkað, svo að enginn fái meiri styrk en 1200 kr. á haughús og 800 kr. fyrir túngræðslu á einu ári. Þessi upphæð svarar til þess, að bygt sje áburðarhús fyrir 20 kýr; verður styrkurinn þá 1200 kr., sje reiknað kr. 1,50 á dagsverkið. Nefndin leit svo á, að óþarfi væri að styrkja það, sem þar væri fram yfir, enda munu fáir bændur byggja stærra fjós en yfir 20 kýr, og þeir, sem það gera, munu svo efnaðir, að ekki er þörf á hærri styrk. Sama er að segja um hámarkið á jarðabótastyrknum. 800 kr. svara til 3 hektara lands, sje dagsverkið styrkt með kr. 1,00. Það er hæpið, að bændur alment rækti meira árlega. Flesta mun skorta áburðarmagn til þess. Ef bóndi á sama ári bæði byggir stórt áburðarhús og ræktar 3 hektara lands, þá fær hann 2000 kr. og sýnist það sæmilegur styrkur. Þessi takmörk eru sett til þess að hafa hemil á þeim upphæðum, sem hver einstaklingur getur fengið.

Þriðja brtt. er um að lækka matið á dagsverkum þeim, er leiguliðar vinna upp í eftirgjald, úr kr. 3,50 niður í kr. 3,00. Nefndinni virðist 3 kr. mat vera sæmilega hátt, og þessir menn njóta svo góðra kjara, að fáir njóta jafngóðra, og það þó matið sje lækkað.

Þá er 4. brtt. um verkfærakaupasjóðinn. Með henni er 12. gr. frv. skift í 5 gr., en í raun og veru er ekki farið fram á mikla efnisbreytingu. Með þessari sundurgreiningu er efnið flokkað betur, ákvæðin gerð ljósari og skýrari. Í frv. er ekki hægt að sjá, hvort bóndi sá, er styrks nýtur, þarf að vera í einhverju búnaðarfjelagi eða ekki. En samkv. brtt. verður hann að vera meðlimur í búnaðarfjelagi. Í frv. eru heyvinnuvjelar teknar undir ákvæði sjóðsins. Nefndin getur ekki fallist á, að það sje rjett. Heyvinnuvjelar eru annars eðlis; þær eru frekar framleiðslutæki, og mætti segja, að það væri eins eðlilegt að styrkja þá einstaklinga, sem ekki geta komið því við að nota heyvinnuvjelar, til að halda kaupafólk. Það er engin ástæða til að styrkja þá frekar, sem betri hafa aðstöðu, hafa vjeltækt tún og engi. Nefndin leggur því til, að þetta ákvæði verði felt burt.

Jafnframt því, að nefndin hefir gert ákvæðin um verkfærakaupasjóðinn skýrari en í frv., vill hún láta það koma ljóst fram, að fyrir henni vakir, að sjóðnum verði fyrst og fremst varið til þess að hjálpa einstaklingunum til að eignast verkfærin. Nefndin lítur svo á, að meira sje um það vert, að heimilin eigi verkfærin en búnaðarfjelögin. Í fyrsta lagi er verkfærunum frekar hætt við eyðileggingu, ef þau eru undir umsjón búnaðarfjelaga en einstaklinga. Í öðru lagi er miklu aðgengilegra fyrir bóndann að grípa til áhaldanna hverja stund, sem til fellur, ef þau eru til á heimilinu. Eftir till. nefndarinnar er auðvelt fyrir 3 bændur, sem búa skamt hver frá öðrum, að eignast verkfærin á þrem árum gegn 100 kr. tillagi á ári. En þegar ekki liggja fyrir umsóknir frá einstökum mönnum, og fje er til í sjóði, þá njóta búnaðarfjelögin sömu kjara við verkfærakaup.

Í frv. var ákvæði um, að búnaðarfjelög gætu fengið helmings framlag til kaupa á jarðræktarvjelum. Nefndin gat ekki fallist á þetta, taldi ekki rjett að veita fje til þessa, fyr en búið væri að afla nægra hestaverkfæra. En ef þá er fje fyrir hendi, er heimilt að styrkja slík vjelakaup með alt að ¼ verðs.

Þá vill nefndin láta það koma skýrt fram, hvenær lögin gangi í gildi, og gerir um það brtt. Ætlast er til, að þær jarðabætur, sem mældar eru á þessu ári, komist undir ákvæði þessara laga. Með orðinu „jarðabætur“ á nefndin ekki einungis við túnrækt, heldur einnig áburðarhús.

Sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að sinni. En nefndin óskar þess, að frv. verði samþykt með þeim brtt., sem hún gerir við það. Lítur hún svo á, að þá sje frv. komið í gott horf og muni verða til mikils gagns.