28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefi fátt um þetta frv. að segja. Hv. efri deild hefir gert á því nokkrar breytingar, fremur smávægilegar, sem landbúnaðarnefnd þessarar hv. deildar getur fallist á. Fyrsta brtt., sem hv. Ed. hefir gert, er um það, að hámark styrkupphæðar þeirrar, sem veitt er samkv. 3. og 4. gr. frv., í fyrsta lagi fyrir áburðarhús og safnþrær, sje 1200 kr. í hvern stað. Önnur brtt. er um það, að fyrir unnar jarðabætur sje mest greitt 800 kr. í hvern stað. — Þriðja brtt. er um það, að í stað þess, að leiguliðar á opinberum eignum fái kr. 3,50 fyrir hvert dagsverk, fái þeir kr. 3,00. Ennfremur hefir háttv. Ed. viljað leggja ríkari áherslu á það en áður var, að verkfærakaupasjóðurinn styrki einstaklingana til þess að afla sjer verkfæra og að þá sjaldan hreppabúnaðarfjelögin geri það, sjeu þau styrkt að ¼ í stað ½, eins og í frv. stóð, þegar það fór hjeðan. Þessar eru helstu breytingarnar. Auk þess vill hv. Ed. skifta 12. gr. í 5 nýjar greinar, en það skiftir litlu máli. Landbn. getur sem sagt fallist á þessar breytingar og telur rjettmætar þær skorður, sem reistar eru við því, hve mikið fje komi á hvern stað, eða gangi til hvers einstaklings. Það hafði borist í tal í landbn. þessarar deildar að gera þetta, en þar sem ráðgert var, að þetta væri aðeins til bráðabirgða, fanst nefndinni ekki brýn ástæða til þess að gera breytingar nú þegar, en getur þó fallist á breytingar hv. Ed. Það er því till. landbn., að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir.