21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

2. mál, fjáraukalög 1926

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg ætla mjer ekki að tala langt mál um þetta frv. Eins og sjest af nál., þá leggur nefndin til, að það verði samþ. óbreytt. Jeg ætla heldur ekki að tala um efnishlið þess, því þær athugasemdir, er kunna að verða gerðar við hana, munu frekar koma fram þegar næsta mál á dagskrá verður rætt, en það eru landsreikningarnir. Um formshliðina er það eitt að segja, eins og stendur í nál., að leitað er aukafjárveitingar á öllu því, er endurskoðendurnir leggja til, að leitað sje aukafjárveitingar á. Gjöldin hafa alls farið fram úr áætlun um kr. 3379502,94. Þar af er leitað aukafjárveitingar á kr. 1462072,94 og samkv. sjerstökum lögum og fjáraukalögum og væntanlegum fjáraukalögum kr. 1288336,92. Það sem eftir er og ekki er leitað fjárveitinga fyrir, eru kr. 629093,08, og er þetta samtals jafnmikið og landsreikningurinn hefir farið fram úr áætlun. Það helsta, sem ekki er leitað aukafjárveitingar á, er alþingiskostnaður, 45 þús. kr., og lögboðnar fyrirframgreiðslur, 25 þús. kr. Yfirleitt er ekki farið fram á aukafjárveitingu fyrir umframgreiðslu á launum, en þar sem aukafjárveitingar er leitað fyrir útgjöldum samkv. sjerstökum lögum, þá er álitamál, hvort ekki beri að leita aukafjárveitinga fyrir þessu líka. Jeg segi þetta ekki í aðfinningarskyni, heldur aðeins til athugunar. Jeg hefi svo ekki fleira að segja og býst við, að ekki verði langar umr. um þetta, þar sem nefndin hefir lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.