04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi flutt brtt. við frv. á þskj. 258. Fyrsta brtt. mín snertir nafn bankans. Jeg gæti vel felt mig við það íslenska nafn, sem frv. gerir ráð fyrir, en jeg kann ekki við till. landbn. og vil þá heldur, að bankinn heiti Búnaðarbanki, ef á annað borð verður breytt nafninu. Mjer virðist eðlilegra nafnið Búnaðarbanki en Bændabanki. Það liggur beinna við að kenna bankann við atvinnuveginn en stjettina, því vegna atvinnuvegarins er hann settur, en ekki vegna stjettarinnar. Þess má og geta, að forskeyti nafnsins er notað í mörgum öðrum skyldum samböndum, t. d. búnaðarfjelög, búnaðarskóli, búnaðarsamband, búnaðarmálastjóri o. s. frv. Jeg verð því að líta svo á, að þetta nafn sje heppilegra en nafn það, sem n. leggur til.

Þá legg jeg til að stytta erlendu nöfnin og gera þau eðlilegri. Samkvæmt frv. og till. landbn. eru nöfnin löng og stirð í munni, en hinsvegar get jeg ekki sjeð, að neinn ávinningur sje að slíku nafnatildri. Það er ætlað að láta nafn bankans sýna það eða auglýsa í hinum erlenda fjármálaheimi, að hann hafi ríkisábyrgð að baki, en það er bæði óviðfeldið og óþarft. Erlendir lánveitendur munu ekki láta sjer koma til hugar að veita bankanum lán nema að hafa kynt sjer áður lög bankans og ástæður. Og þá er það tekið skýrt fram í 4. gr., að ríkið ábyrgist bankann. Mjer finst þetta því vera dálítið auglýsingarkent og óviðfeldið orðalag, og auk þess alveg óþarft.

Í 3. brtt. minni felst atriði, sem jeg legg nokkra áherslu á, en það er að fella niður úr 11. gr. heimild ríkisstjórnar til þess að veita ábyrgð ríkissjóðs á lántökum bankans erlendis hvenær sem er. Jeg tel þetta ónauðsynlegt, sjerstaklega að því athuguðu, að þingið kemur saman árlega, og getur tæplega borið svo bráðan að með lántökuþörf bankans, að ekki megi bíða úrskurðar Alþingis. Fyrir mjer er þetta fyrst og fremst stefnuatriði. Jeg er algerlega mótfallinn því, að Alþingi sje að afsala sjer óskoruðu fullveldi sínu nema af fylstu nauðsyn.

Loks fer 2. brtt. fram á að fella burt úr 4. gr. orðin „án tryggingar í sjálfs sín eignum“ og orðin „að undanteknu láni samkvæmt 11. gr. laga þessara“. Síðari breytingin leiðir beint af 3. brtt. minni. En um hina brtt. er það að segja, að mjer er ekki ljóst, hvað getur verið átt við með orðum frv. „í sjálfs sín eignum“. Jeg skil ekki, hver sjálfseign bankans getur verið, úr því ríkissjóður á hann „með húð og hári“. Mjer virðist þetta ákvæði nánast sagt vitleysa. Annars skiftir það litlu máli, en jeg vil þó leggja til að fella það burt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt. Jeg er ánægður yfir þeim góðu undirtektum, sem frv. hefir fengið, og jeg vona, að þinginu auðnist að veita því góða afgreiðslu.