14.05.1929
Neðri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

101. mál, póstmál og símamál

Benedikt Sveinsson:

Það hefir ekki verið upplýst enn, svo að jeg hafi heyrt, hversu mikið bygt skuli á eða fara skuli eftir í framkvæmd till. þeim, sem fram eru bornar í álitsskjali n. þeirrar, er sett var utan þings til þess að íhuga póstmál og símamál, og þessu frv. fylgja. En þar er sundurliðað, hvernig hagað skuli póstferðum og póstflutningi í hjeruðum landsins. En þar sem till. þessarar nefndar verða hafðar til hliðsjónar eða lagðar til grundvallar um skipun póstferðanna, þykir mjer nauðsyn til bera, að þær sjeu vel athugaðar nú við meðferð þingsins á málinu.

Jeg skal ekki rökræða, hvort heppilegra sje að hverfa að höfuðbreyt. nefndarinnar, að flytja póstflutning einungis með skipum inn á helstu hafnir og þaðan út um sveitir, en engu að síður þykir mjer margt athugavert við þær till., er komið hafa frá þessari hv. n., og þskj. þau, er fyrir liggja frá hennar hálfu.

Það er eðlilegt, að stjórn póstmála styðjist mjög við hinar sundurliðuðu till. utanþingsnefndarinnar, þegar þær hafa verið birtar í skjölum þingsins, ef engar aths. eru við þær gerðar. Og í þeim atriðum, sem þær eru óljósar eða óheppilegar, þá geta þær orðið villandi fyrir hæstv. stj., þá er til framkvæmdanna kemur. Fulltrúar kjördæmanna hljóta því að benda á helstu agnúana, er þeim virðist vera á þessum till. margnefndrar nefndar, svo að stj. eigi hægra um vik að átta sig á því, hversu póstferðum hjeraðanna verði haganlegast komið fyrir.

Það er einkum um samgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu og jafnvel Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem jeg er kunnugastur, sem mjer virðist áfátt till. n. Hún vill láta niður falla póstferðir yfir suma fjallvegi, t. d. Brekknaheiði á Langanesi og Tunguheiði á Tjörnesi, en það mundi koma sjer mjög illa, ef póstferðir legðust niður milli þeirra sveita, sem liggja tveim megin þessara fjallvega. Jeg þykist reyndar sjá, að n, ætlist til, að póstflutningum verði með tímanum haldið uppi milli bygðanna austan og vestan Tunguheiðar leiðina „kring Tjörnes“, sem kallað er, enda er sú leið oft farin, þegar Tunguheiði er ófær yfirferðar, og ekkert athugavert við, að póstleiðin liggi þar. En þar sem nefndin fer í því sambandi að gylla það, að auðgert sje að leggja bifreiðarveg „kring Tjörnes“, þá er jeg hræddur um, að hv. dm. mundi lítast annað, ef þeir færu þessa leið sjálfir, og mundu þeir telja það fagurgala, er á litlum rökum væri reistur.

Jeg þykist geta nokkuð úr flokki talað um þetta mál, þar sem jeg er borinn og barnfæddur þar í sveit. Vil jeg síst spilla fyrir því, að lagður verði bifreiðarvegur kring Tjörnes, en ekki dugir að telja þinginu trú um það, að vegur sá verði auðlagður og ódýr, því að hann liggur um langa leið og ærið torsótta, sem lengi hefir verið við brugðið. Eru þar til trafala stórkostleg gil, keldur og mýrlendi, ár og lækir og sumstaðar háar og snarbrattar brekkur, sem eigi er unt að leggja veg um nema því aðeins að skáskera þær mjög með ærnum kostnaði. Þar er og hættulegt fyrir snjóflóðum að vetrarlagi, t. d. í Gerðibrekku fyrir utan Auðbjargarstaði, og verður eigi hjá þeirri hættu komist.

N. fer nokkuð lauslega í þetta mál í áliti sínu á bls. 16, þar sem hún talar um, að eðlilegt sje, að þjóðvegurinn liggi fremur kring Tjörnes heldur en yfir Tunguheiði og mundi ekki verða dýrari í lagningu, en langtum nothæfari. Um samanburð á kostnaði er það að segja, að þetta er með öllu órannsakað mál. Er og á það að líta, að jafnan hefir verið talið nær ókleift að leggja akveg yfir Tunguheiði, því að hún er meðal hinna verstu fjallvega, — slagar hátt upp í Fjarðarheiði — og vegarlagning yrði þar ákaflega dýr. Vegurinn kring Tjörnes er miklu lengri og yrði því að líkindum ennþá dýrari, en hann kemur aftur að mun betri notum. Tel jeg því rjettara að leggja veginn kring Tjörnes, en menn verða vel að gæta þess, að sú vegarlagning hlýtur að standa lengi yfir og á langt í land, að hún komist í framkvæmd, því að önnur annvirki liggja nær garði. Þýðir því ekki að svo stöddu að setja póstferðir norður þar í samband við þennan Tjörnes-veg, svo sem hann væri þegar lagður.

Að vísu er svo ákveðið í vegalögunum, samkv. breyt., er gerð var þegar þau voru síðast löguð, að þjóðvegurinn milli Húsavíkur og Kelduhverfis sje um Tunguheiði. Fyrst hafði staðið Reykjaheiði í frv., en þessi breyt, var upp tekin samkv. eindreginni ósk Húsvíkinga. Vissum vjer þó vel, þeir sem kunnugir voru, að varla mundi akvegur lagður yfir Tunguheiði fyrst um sinn. Var og þekking manna minni þá en nú er orðin um akvegu. En síðan menn hafa komist að raun um, hversu auðvelt er að ryðja sumarfæra vegi um sljettar og þurrlendar heiðar, þá hafa menn sjeð, að mjög er auðgert að leggja slíkan veg yfir Reykjaheiði með furðulitlum kostnaði. Þar er hvergi nein torfæra, hvergi brekka nje lækjarspræna, heldur glymjandi götur Bláskógavegar, sljettar „Hellurnar“ og mjúkir melar. Má þar auðveldlega gera greiðan veg fyrir bifreiðar á einu sumri, og þarf að vinda bráðabug að því. Þar með eru hjeruðin austan heiða komin í samband við aðra bifreiðavegi landsins, sem nú má heita, að nái alt austur til Húsavíkur. Þessi vegur er alveg sjálfstæður, hvað sem líður bifreiðavegi kring Tjörnes, sem ekki verður lagður nema á mörgum árum og með kostnaði, sem hlýtur að skifta hundruðum þúsunda.

Það er eindregin skoðun allra Norður-Þingeyinga, að sjálfsagt sje að fá sem bráðast sumarveg handa bifreiðum um Reykjaheiði, því að þeim er vel ljóst, hversu langt það hlýtur að eiga í land, að fær akvegur verði lagður kring Tjörnes.

Háttvirtri póstmálanefnd verður ekki mikið fyrir að ráða fram úr póstgöngunum í Norður-Þingeyjarsýslu. Segir svo í 45. tölulið nál. hennar, að það kerfi virðist svo einfalt, að varla þurfi skýringa við. Þykir mjer þetta nokkuð snubbóttar ráðagerðir um póstmálakerfi heils hjeraðs. Þar eru þó þrjár hafnir, sem póstskip sækja, og er engin grein gerð fyrir, hversu haga skuli póstflutningum þaðan, og er það alt á huldu, hvort t. d. leggja skuli upp í Raufarhöfn eða við Kópaskersvog póstflutning þann, sem á að fara norður á Sljettu eða í Þistilfjörð vestanverðan. Eins er ekkert sagt um það, hvort Fjallasveit á að fá póstflutning austan af Vopnafirði eða vestan frá Akureyri um Mývatnsfjöll, eða norðan frá Kópaskersvogi. Allir hljóta að sjá, að við það er alls eigi hlítandi, að ekki skuli neitt ákveðið um þetta, úr því að á annað borð eru bornar fram till. um tilhögun póstferða um land alt, sem gert er ráð fyrir, að stj. styðjist við og þykja munu hafa fengið nokkra helgi, er þær hafa birst hjer í þingskjölum, ef ekki er bent á annmarkana.

Ennfremur segir hv. n., að vafasamt sje, hvort hentara mundi fyrir Skeggjastaðahrepp að fá póst frá Þórshöfn eða Vopnafirði, en finst eðlilegra að hafa heldur póstsamband við kauptún innan sýslu og segir, að síðar megi breyta til eftir óskum hjeraðsbúa sjálfra. Mælir hún þó heldur með því, að pósturinn verði fluttur úr Vopnafirði en frá Þórshöfn, En þessar till. hennar lýsa miklum ókunnugleika, því að þetta bygðarlag, Skeggjastaðahreppur eða „Strönd“, hefir miklu meiri skifti við Þórshöfn heldur en Vopnafjörð, bæði af því, að það er í því læknishjeraði, sem lýtur undir Þórshöfn, og sækir einnig þangað verslun sína. Er auðsæilega hagfeldast, að bygðarlagið fái póstflutning þangað, sem samgöngur þess allar, viðskifti og verslun beinist að. Virðist mjer því miklu eðlilegra, að póstur sje sendur frá Þórshöfn austur í Skeggjastaðahrepp heldur en úr Vopnafirði norður yfir Sandvíkurheiði, sem bæði er miklu lengri leið og fáfarnari.

Jeg vildi aðeins benda á þessi atriði, sem varða mitt hjerað, án þess að fara að ræða fleiri till. hv. n., sem margar eru mjög óljósar og óheppilegar; teldi jeg best, bæði um það, er jeg hefi til nefnt, og annað, að leitað væri álits viðkomandi sýslunefnda áður nokkru væri slegið föstu um það, hversu póstferðum skuli hagað um hvert hjerað.