14.05.1929
Neðri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

101. mál, póstmál og símamál

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal nú verða við tilmælum hv. frsm. meiri hl. um að lengja ekki umr. til muna. Jeg skil þá ósk hans vel, og er mjög eðlilegt, að hún komi úr þeirri átt. Hv. þm. stendur nefnilega varnarlaus uppi, og ferst honum lítt hönduglega að berja í brestina fyrir frv. þetta, og ræður það af líkum, þar sem hv. þm. virðist mjög skorta þekkingu á þessum málum.

Mjer kom það dálítið undarlega fyrir sjónir, þegar hv. frsm. meiri hl. vildi slá því föstu, að landssímastjóri og póstmeistari hefðu báðir lagt eindregið með frv. þessu. Mjer er ekki ljóst, hvernig hv. frsm. fer að því að í draga þessa ályktun. Jeg fæ ekki betur sjeð en að hv. þm. hafi algerlega í hausavíxl á hlutunum. Þeir landssímastjóri og aðalpóstmeistari lögðu á móti 1. gr. frv.; 2. gr. töldu þeir óþarfa, 3. gr. voru þeir hvorki með í nje á móti, 4. gr. voru þeir algerlega mótfallnir, 5. gr. voru þeir samþykkir, enda fjallar hún einungis um bætt launakjör starfsmanna þessara; 6. gr. voru þeir sammála. Þetta er nú það, sem þeir hafa lagt til þessa máls í samgmn. Í heild töldu þeir frumvarpið ýmist óþarft eða skaðlegt og aðalpóstmeistari hjelt því fast fram, að landssímastöðvarstj.-störfin ættu að leggjast undir póstmeistarastörfin, ef breyta ætti. Jeg skil því ekki, hvernig hv. frsm. fer að telja þá sammála frv. í aðalatriðum. Því fer svo fjarri. Jeg efast ekki um, að þessum mönnum sje best kunnugt um hin yfirgripsmiklu og margbrotnu störf, sem bæði póst- og símamenn hafa venjulega með höndum. Oft er annríkið svo mikið, að vinna verður nótt og dag á pósthúsunum, því að ekki þykir heppilegt að taka aukafólk til þessara starfa; slík störf ganga seint hjá viðvaningum, og auk þess eru þau oft svo ábyrgðarmikil, að ekki er hægt að nota til þeirra nema hina föstu menn. Auk þess ber á það að líta, að pósthús í aðalkaupstöðum hafa og verða að hafa beint samband við útlönd, því ella myndu af hljótast tafir og önnur vandræði, ef alt yrði að ganga gegnum pósthúsið í Reykjavík. Hv. frsm. meiri hl. komst svo að orði, að við mættum ekki einblína alt of fast á það, sem aðrar þjóðir gerðu í þessum efnum. Alveg rjett. Í Danmörku hafa t. d. ekki nema þrjú pósthús beint samband við útlönd. Veldur það engum óþægindum þar í landi, vegna hinna öru samgangna, hinna daglegu járnbrautaferða um þvert og endilangt landið.

Hv. frsm. viðurkendi, að vafasamt væri, að um sparnað væri að ræða í sambandi við þetta frv. Við, sem á móti erum frv., höfum margsannað, að sparnaðurinn er óverulegur eða enginn, og ef hann er nokkur, kemur hann margfaldl. niður á notendunum, sem þola verða ljelegri afgreiðslu, ef sameinað verður. Hv. frsm. sagði, að sparnaðurinn yrði aðallega í framtíðinni. Ef svo er, að sníða á stakkinn við hæfi komandi tíma, þá álít jeg, að gjalda beri varhuga við því að rasa um ráð fram í þeim efnum. Þá hygg jeg ráðlegast að fara varlega í sakirnar og sameina einungis þar, sem hentugt er eins og nú standa sakir. Til þess þarf enga nýja lagaheimild; stj. er slíkt innan handar, enda eru þess þegar mörg dæmi, að sameinað hefir verið á smærri stöðum. Hv. frsm. var mjög í vafa um, hvort tiltækilegt væri að sameina á Akureyri. Að sjálfsögðu gildir þá það sama um Ísafjörð, Vestmannaeyjar og Seyðisfjörð. Það er vert að gefa því gaum, að póstafgreiðslurnar á Ísafirði og í Vestmannaeyjum eru taldar vera miður áríðandi og minni en t. d. póstafgreiðslan á Seyðisfirði. Stöðvarstjórinn þar á að hafa mun hærri laun en á áðurnefndum stöðum, og þó er loftskeytastöð í sambandi víð landssímastöðina í Vestmannaeyjum. Hver mun vera ástæðan til þessa? Í þessu sambandi nægir að benda á peningaviðskiftin, sem þessi pósthús hafa haft síðastl. ár. Þau námu á Akureyri 1460 þús. kr., á Ísaf. 1170 þús. kr., í Vestmannaeyjum 800 þús. kr., en á Seyðisf. ekki nema 400 þús. kr. Auk þess liggja fleiri aukapóstar undir Ísafjörð en Seyðisfjörð, og fleiri brjefhirðingar. Jeg hefi aðeins drepið á þessi atriði til þess að sýna, að þetta, eins og fleira í till. n., er harla lítið undirbygt, og ræða hv. frsm. meiri hl. á litlum kunnugleikum bygð.

Þá vildi hv. frsm. gera lítið úr þeirri till. landssímastjóra, að þeir, sem fengju þessi störf, yrðu að hafa unnið minst 2 ár við landssímann. Þetta fanst hv. þm. óþarfi. En jeg fæ nú ekki betur sjeð en að slíkt ákvæði sje í alla staði hið þarfasta og fylsta nauðsyn sje til þess, að þeir, sem þessi störf hafa með höndum, fullnægi kunnáttuskilyrðum. Enda mun hv. þm. skilja þetta vel, ef hann gætir betur að. Jeg hygg t. d., að hv. þm. myndi þykja það fremur óviðkunnanlegt, ef óreyndur samvinnuskólapiltur væri umsvifalaust tekinn fram yfir hann og settur yfir þá verslun, sem hv. þm. hefir í fleiri ár veitt forstöðu. Ef hv. þm. er alvara um þetta, þá verður maður að draga þá ályktun, að hann meti reynslu, æfingu og leikni í starfi einskis virði.

Þá sagði hv. þm., að allar forgangskröfur manna til embætta ættu engan rjett á sjer. Þetta get jeg með engu móti viðurkent. Sá maður, sem t. d. hefir verið póstur í tugi ára og staðið vel í stöðu sinni, á áreiðanlega meiri rjett til betri stöðu í þeirri grein, ef nokkur losnar, heldur en einhver og einhver, sem aldrei hefir við slík störf fengist. Ef þetta er ekki viðurkent, þá er verið að draga úr framsækni manna til þess að verða dugandi og nýtir starfsmenn þjóðarinnar. Um það atriði, að ef afgreiðsla kynni að ganga seint, þá fórust hv. þm. svo orð, að hið opinbera myndi skerast í leikinn. En á hvern hátt? Ætti ríkisvaldið að segja við stöðvarstjórann, að hann hefði ekki nægilegt fólk? Vitanlega myndi stöðvarstjórinn svara því einu til, að hann kæmist yfir þessi störf með þessum mannafla, enda þótt afgreiðsla gengi svo treglega, að notendur biðu baga og tjón af. Þá væri ekki um annað að gera fyrir ríkið en hækka skrifstofufje stöðvarstjóranna.

Annars finst mjer hv. þm. hafa bitið sig helst til fast í þá trú, að þar sem hjer er um stjfrv. að ræða, þá sje hjer eitthvað stórvægilegt umbótamál á ferðum. En slík trú getur oft svikið, og svo er að þessu sinni.

Hv. 4. þm. Reykv. tók mjög skynsamlega í málið. Hann er einn í n. þeirri, sem haft hefir málið til meðferðar, og mun að nafninu til heyra til meiri hl. Hann sagði, að ekki kæmi til mála að svifta menn störfum, nema því aðeins, að ríkið hafi verulegan hag af því fjárhagslega. Hinsvegar telur hann áætlun póstmálan. um sparnað þann, sem þessi lög hefðu í för með sjer fyrir ríkið, mjög efasama. Jeg vil halda því fram, og hefi sannað það, að sparnaður er lítill eða enginn, en hinsvegar margföld óþægindi fyrir alla notendur pósts og síma. Þessir sparnaðarútreikningar póstmálan. eru lítið undirbygðir, eins og flest það, sem hún hefir látið frá sjer fara.

Hv. þm. Dal. ámælti minni hl. samgmn. fyrir að hafa ekki gefið út nál. Jeg held nú, að slík ámæli eigi ekki síður við meiri hl., því nál. hans var nafnið eitt. Það er bæði stutt og engar upplýsingar nje neitt til stuðnings frv. í því. Auk þess vill einn meirihlutamaðurinn láta breyta frv. og hefir flutt till, um það. En n. hefir ekki haft tök á að ræða málið nema á einum fundi, og daginn eftir var málið tekið á dagskrá, að því er talið er að beiðni stj. Með þeim önnum, sem nú eru í þinginu, þingfundir venjulega frá kl. 10 að morgni til kl. 1–2 á nóttunni, auk nefndastarfa, þá ræður það af líkindum, að við minnihl.menn höfðum engan tíma til að útbúa ítarlegt nál., sem þó vissulega hefði verið æskilegt. Hinsvegar væntum við þess fastlega, að umr. þær, sem fram hafa farið um málið hjer í hv. deild, muni hafa sannfært hv. þdm. um það, að ef þetta frv. á að ná afgreiðslu á þessu þingi, verður það að taka róttækum breytingum.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að jeg hefði verið með getsakir í garð póstmálan. út af þessu frv. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Jeg talaði einungis á móti frv., en ekkert um tildrög þess. Hv. þm. talaði um, að jeg þyrfti að lesa nál. betur. En jeg vil þá segja það, að hann hefir ekki lesið það svo vel sem skyldi, ef hann heldur því fram, að þar sje ætlast til, að lögin komi til framkvæmdar jafnskjótt og hinar einstöku stöður losna. Vilji hv. þm. slá niður allar getsakir í þessum efnum, þá ætti hann að styðja þær brtt., sem koma munu til varnaðar misbeitingu í veitingu starfanna. Enda er það álit allra heilbrigt hugsandi manna, að ekki eigi að svifta menn stöðunum nema ríkinu sje auðsjeður hagur við breytinguna. En þannig hagar hvergi til að því er þetta mál snertir nema á Borðeyri, en þar hefir nefndin ekki gert ráð fyrir neinum sparnaði, þó undarlegt sje.

Jeg vil undirstrika enn að nýju, að þar sem póststöðvarnar skifta beint við útlönd, þá er alveg óhjákvæmilegt að hafa vana póstmenn og menn, sem eru þaulvanir slíkum störfum, því að ábyrgðin hvílir á ríkinu, ef einhver vanræksla á sjer stað. T. d. ef ekki er fylgt fyrirmælum í póstsamningum, sem gerðir eru við erlend ríki, þá er það víst, að íslenska ríkið sætir ábyrgð fyrir. Það má ráða af því, sem jeg hefi áður sagt, að það eru ekki svo fáar afgreiðslur frá póststöðvunum um alt land, sem fara til útlanda. Það er ekki hægt að segja, hversu margar póstsendingar fara til útlanda af þeim 41/2 milj. sendinga, sem afgreiddar eru frá pósthúsinu á Ísafirði, en jeg hygg, að þær sjeu æðimargar.

Meðal annars vegna þeirrar ábyrgðar, sem hvílir á póstmönnum yfirleitt um að þessi störf þeirra sjeu rækt eins og víðtækir milliríkjasamningar ákveða, er það svo í Danmörku, að aðeins þrjár póststöðvar eru látnar hafa á hendi póstafgreiðslu til útlanda, og eru þó þúsundir póststöðva í öllu landinu. Mjer finst það vera alveg óforsvaranleg stefna, ef nú á að leggja út á þá braut að hafa ekki vel æfða menn við póstafgreiðsluna, jafnvel þó að þeir eigi að vera undir yfirstjórn símastjóranna. Jeg get ekki verið því fylgjandi að lækka frá því, sem nú er, þau laun, sem póstmeisturunum eru greidd. Mjer er kunnugt um það, að á Ísafirði vinnur póstmeistarinn altaf fullan skrifstofutíma, frá 10–6 eða 10–7 á hverjum degi þegar pósthúsið er opið, og auk þess oft mikla aukavinnu þegar skip koma. Er hann því vel að launum sínum kominn. Þetta er líka duglegur og þaulvanur maður, svo að störfin verða honum ljettari en lítt vönum mönnum, og mjer þykir sennilegt, að þó að teknir væru tveir óvanir menn til þessa, þá mundu þeir ekki ríkasta meiri störfum heldur en hvor af þeim tveim mönnum, sem síðast hafa gegnt póstmeistaraembættinu á Ísafirði.

Hv. frsm. hefir haft á móti því, að talað sje hjer um nál. póstmálan. í sambandi við þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg verð nú að vera á annari skoðun en hann um þetta, og get tekið undir það með hv. 1. þm. Skagf., að þar sem þetta álit er látið fylgja frv. til þingsins, þá er ekkert eðlilegra en að það sje tekið til athugunar. Ef þessu áliti væri ekki andmælt, þá er ekkert eðlilegra en að hæstv. stj. líti svo á, að allir væru því sammála og gætu aðhylst þær till., sem þar eru bornar fram. Mundi hæstv. stj. þá að sjálfsögðu telja sjer óhætt að bera fram frv. á næsta þingi í samræmi við þetta, sem væri bygt á þeim grundvelli, sem póstmálan. leggur til.

Jeg gerði grein fyrir því í minni fyrri ræðu, að það bregður víða fyrir hjá póstmálan. mjög miklum ókunnugleika á staðháttum á ýmsum stöðum, og þó að till. hennar sjeu oft svo varfærnislega orðaðar, að ekkert er á þeim að byggja, þá eru þetta samt till. til þings og stj., sem er sjálfsagt að athuga. Það var leiðinlegt, að ekki skyldu vera fyrir hendi till. um þessi mál frá póstafgreiðslumönnum víða af landinu. Þær voru fengnar árið 1924 af aðalpóstmeistaranum hjer í Reykjavík, og voru þá sendar stjórnarráðinu, en árið 1928 átti svo að fara að taka þær til athugunar, en þá fundust þær hvergi, og hafa ekki fundist síðan. Þetta er eitt meðal annars, sem sýnir, hvað það er óheppilegt, að þessi mál skuli ekki heyra beint undir ráðh., því að eins og nú er til stofnað, þarf að senda öll skjöl til stjórnarráðsins. Þessi skjöl, sem jeg var að tala um, finnast hvergi, en aðeins hefir fundist brjef aðalpóstmeistara, þar sem hann hafði gert útdrátt úr till. póstafgreiðslumannanna, en allar nánari upplýsingar vantaði. Jeg vonaðist nú eftir því, að þar sem svo hefði farið, þá hefði póstmálan. beiðst þess, að aðalpóstmeistari útvegaði nýjar upplýsingar frá þessum sömu mönnum, en það hefir hún ekki gert, og því liggja nú engar upplýsingar fyrir frá þeim. Aðalpóstmeistari hafði gert ítarlegar till. eftir þessum plöggum, en þær till. voru ekki afritaðar í póstmálaskrifstofunni, vegna þess að búist var við, að þær kæmu aftur úr stjórnarráðinu. Einnig þessar till. aðalpóstmeistara liggja með þeim plöggum, sem ekki hafa fundist. Það hafa aðeins fundist niðurstöðurnar, sem aðalpóstmeistari hafði skrifað hjá sjer.

Jeg held, að það hefði farið betur á því hjá póstmálan., að hún hefði lagt rækt við að athuga það, sem henni var falið að athuga með brjefi 16. okt. 1928. Það hefði farið betur á því heldur en að hún sje að gera till. um breyt. á æðstu stj. póstmálanna og símamálanna, eins og gert er með 1. og 2. gr. frv. Þær till. eru yfirleitt mjög illa undirbúnar, en hafa tafið n. frá þeim störfum að athuga, hvernig hægast verði að koma póstflutningum um alt land og bera fram till. um bættar póstgöngur. Það hefir ekki komið neitt frá n. nema ofurlauslegar athuganir og svo þetta frv., sem er á engan hátt vel undirbúið.