16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

101. mál, póstmál og símamál

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Jeg get sagt það út af brtt. hv. 1. þm. Skagf., að jeg er í öllum aðalatriðum samþ. henni. Þetta er það sama og fyrir n. hefir vakað, og jeg geri ráð fyrir, að í framkvæmdinni verði þetta svipað og ætlast er til með till.

Nú er komið að þinglokum og vil jeg því ekki tefja málið með því að fara að breyta frv. Miklu fremur vil jeg greiða fyrir frv. eins og unt er.

Brtt. hv. þm. N.-Ísf. tel jeg alveg óþarfa. Jeg held, að hv. þm. hljóti að minnast þess, að á fundi samgmn., sem landssímastjóri var mættur á, kom þetta til tals í sambandi við fregnir um veitingu Borðeyrarstöðvarinnar, og hann lagði ekki mikið upp úr því.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá er vart hægt að fá fullkomna þekkingu á þessum málum, nema því aðeins að hafa starfað eitthvað við þau, en jeg geri ekki svo mikið úr þessu skilyrði um tveggja ára starfstíma. Og jeg hygg líka — eins og jeg tók fram —, að ef landssímastjóri væri kvaddur til um þetta atriði, þá myndi hann ekki leggja svo mikið upp úr því. Þetta veit hv. þm. N.-Ísf. ósköp vel. Þessa brtt. álít jeg því óþarfa, og tel þaðan af síður ástæðu til að samþ. hana en hina brtt. En um það atriði hefi jeg átt tal við hv. 1. þm. Skagf. og við komum okkur saman um það, hvað heppilegast er í þessu efni. Og jeg hefi álitið, að frv. með sinni grg. fæli í sjer nákvæmlega sömu stefnu sem hann vill setja inn í frv. En það, sem okkur greinir aðallega á um, er það, að jeg treysti hæstv. stj. til að framkvæma þetta, en hann treystir henni ekki til að framkvæma það á þennan hátt. Hver hefir sínar ástæður fyrir þessari skoðun á stj., og hann verður auðvitað að bera vantraust til hennar, úr því að hann er í andstöðu við hana.