16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

101. mál, póstmál og símamál

Magnús Guðmundsson:

Jeg hjó eftir því, áð hv. frsm. meiri hl. er í rauninni sammála þessum brtt., en hann leggur samt á móti því, að þær verði samþ. Og það er af ótta við það, að frv. nái ekki fram að ganga. Jeg get nú ekki sjeð, að það sje nokkur hætta með þetta frv. Stjórnarflokkarnir báðir hafa svo góðan meiri hl. í hv. Ed., að þeir geta sannarlega tekið það á dagskrá hvenær sem þeir vilja, og þarf því afgr. ekki að taka nema örskamman tíma. Jeg lofa hv. frsm. því, að jeg skal gera mitt til þess, að engar umr. verði um málið í Ed. Mjer finst það sannast að segja vera það minsta, sem meiri hl. getur gert fyrir minni hl., að lofa að orða frv. eins og þeir segja, að þeir skilji þau og vilji að þau sjeu. Það er þá orðið lítið tillit tekið til minni hl., ef ekki má einusinni fara svo langt að breyta orðalagi þar, sem samræmi er í skoðunum.

Hv. þm. sagði, að hann mundi vilja framkvæma þetta eins og mín till. segir til. Jeg væri nú ánægður með þetta, ef hann ætti að framkvæma það, en það er nú einu sinni ekki. Og sá hæstv. ráðh., sem á að framkvæma það, er ekki viðstaddur og getur ekki látið uppi álit sitt um það. En orðalag 7. gr. er ekki í samræmi við þessa skoðun hv. þm. Og mjer finst það vera það eðlilega að orða lagaákvæði eins og maður vill láta framkvæma þau, en ekki gefa skýringar í framsögu eða nál. og láta svo standa annað í lögunum. Það finst mjer sleifarlag í löggjöfinni. Og mjer finst það meinsemi hjá hv. meiri hl., ef hann vill ekki laga þetta atriði, úr því að hann þó er sammála um það.