16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

101. mál, póstmál og símamál

Jón Auðunn Jónsson:

Það er algerlega rangt hjá hv. frsm. meiri hl., að landssímastjóri hafi viðhaft þessi ummæli sín út af veitingu stöðvarinnar á Borðeyri. Hann benti á, að það væri óhugsandi að ganga framhjá starfsmönnum ríkisins, sem unnið hefðu að starfinu í mörg ár, en taka menn frá prófborðinu. Hitt tók hann sem dæmi, að heyrst hefði, að nú ætti að veita slíka stöðu manni, sem ekkert próf hefði.

Hv. frsm. komst þannig að orði, að það sje varla hægt að fá fullkomna þekkingu á þessu sviði nema hafa starfað að því mörg ár. En samt vill hann ekki, að það sje tekið fram í 1., að menn skuli hafa starfað 2 ár áður en þeir fái stöðu.

Hann komst þó ekki hjá því að játa, að þeir, sem lengst hafa starfað við ritsímann og talsímann, ættu að njóta þess og hafa hærri laun en hinir, sem stutt hafa starfað eða ekkert. Það er óskiljanlegt, ef hann ætlar að láta kúgast til þess að vera á móti sínu eigin áliti. Því að jafnvel þó að hann sje sammála brtt. okkar, neitar hann að greiða þeim atkvæði. (HJ: Jeg hefi aldrei sagt, að jeg væri sammála). Það er vitanlegt um brtt. hv. 1. þm. Skagf., að hv. þm. tjáði sig henni sammála. Og í umr. hefir hann talið það fyrirkomulag, er jeg vil hafa, fullkomlega rjettmætt. Jeg hygg líka, að aðrir nm. sjeu þessu sammála. Þannig hefir hv. 2. þm. Rang. talið rjett, að það kæmu einhver varnarákvæði gegn því, að menn frá prófborðinu væru skipaðir í stöðvarstjórastöður, en hinir, sem lengi hafa starfað, látnir sitja á hakanum. Annars er heimild fyrir, að ríkisstjórnin geri þetta, ef mín brtt. er ekki samþ. Og það er svo mikil óbilgirni gagnvart starfsmönnum landsins að neita að samþ. svona sjálfsagt varnaðarákvæði. Tímatakmarkið hefði átt að vera miklu lengra.

Jeg læt þetta nægja sem ábendingu um það, að ekki sjeu skipaðir í stöður þessar óvaningar eða verra en það. Það er svo um flesta símritara, sem koma frá prófborði, að þeir geta mjög illa tekið á móti skeytum. Og vanalega er talið, að það þurfi tveggja ára æfingu til þess að geta sent skeyti svo að vel sje læsilegt.

Það liggur óneitanlega grunur á um það, að hjer sje eitthvað gruggugt á bak við, þegar menn geta ekki samþ. jafnsjálfsagða till. og þessa. Mjer þætti gaman að sjá, hverjir það verða, sem neita jafnsjálfsagðri kröfu, sem starfsfólk símans hlýtur að hafa í þessu efni.