16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

101. mál, póstmál og símamál

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Það þýðir nú ekki að þreyta kapp um þetta mál lengi. Jeg veit það a. m. k., að hv. 1. þm. Skagf. hefir skilið afstöðu mína til þessa máls, skilið það, að jeg þori ekki að ganga inn á breyt., þó að jeg teldi þær vera til þess að gera enn ljósara það, sem fyrir stj. vekti, og það er einmitt vegna þess, að frv. næði þá ekki fram að ganga. Það kemur svo þráfaldlega fyrir, að allumsvifamiklar umr. spinnast um þau mál, sem flýta þarf sem mest í gegn. Jeg veit, að hv. 1. þm. Skagf. hefir viljað gera það, sem hann gæti, til að flýta fyrir málinu, en það er engan veginn víst, að það takist. Það er altaf hægt að finna eitthvað og eitthvað til þess að teygja tímann. En jeg fyrir mitt leyti vil segja, að jeg geri það, sem unt er, til þess að þinglausnir dragist ekki fram yfir hátíð. Og þegar ekki er um meira að ræða en þetta er frá mínu sjónarmiði, þá tel jeg ekki vert að gera þessa breyt.

Það var hjá hv. þm. N.-Ísf. alt ósatt, sem jeg hafði farið með. En jeg held, að hann hafi ekki fært neinar sönnur á sitt mál. Hann virtist mest halda því fram, að menn geti aldrei undir neinum kringumstæðum tekið þessi störf, nema því aðeins, að þeir hafi unnið að þeim í tvö ár minst. Jeg veit ekki betur en póstmeistarastarfið á Akureyri sje rekið af manni, sem ekki var búinn að starfa svo lengi, þegar hann tók við starfinu á eigin ábyrgð. Annars er dálítið gaman að benda á eitt í þessu efni. Það er talað um, hve yfirgripsmikið þetta starf sje á Akureyri og Ísafirði, þar sem ekki eru sameinuð störfin. Á Siglufirði eru þau heldur ekki sameinuð. Og hv. þm. N.-Ísf. var við 2. umr. málsins að sýna fram á með tölum, hve hjer væri um mikla peningaábyrgð að ræða á hinum stöðunum. En honum láðist óvart að geta þess, að á Siglufirði — þar sem sameining hefir átt sjer stað — er eins mikil umsetning á pósti eins og á Ísafirði, og nærri eins mikil og á Akureyri.

En svo að jeg víki að hinu tveggja ára starfstímabili, vil jeg endurtaka það, að sjerstaka áherslu lagði landssímastjóri ekki á þetta atriði. Og jeg vil ennfremur benda á það, að aðalpóstmeistari þóttist mjög lítið þurfa um þetta að segja. Og honum fanst fjarstæða, að þessi maður hefði sjerþekkingu á símamálum, þar sem hann hlyti að hafa símritara. Póstmeistari heldur yfirleitt fram, að starf þessa forstjóra muni aðallega vera fyrir nóstafgreiðsluna (JAJ: Svo-o!), en aðstoðarmaðurinn sje við símann. Þess vegna skilst mjer á aðalpóstmeistara, að það sje alls ekki nauðsynlegt, að þessi forstjóri hafi sjerþekkingu á símamálum, en á honum hvíldi öll ábyrgð og peningaumsetning, svo að það er að mínu áliti ennþá minni ástæða til að setja sig svona mikið á móti þessu eins og hv. þm. N.-Ísf. gerir.