06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil nú ekki fara að gera þetta að neinu kappsmáli, enskal aðeins taka það fram, að jeg er algerlega ósammála báðum þm. Skagf. um það, að frágangurinn á þessari nýju deild bankans sje hliðstæður frágangi hinna deildanna og svo skammlaus, að hægt sje við að una. Það var lögð ákaflega mikil vinna í þetta frv. og gætt allrar vandvirkni, en þessari nýju deild var skotið inn í það í hv. Ed. að mjög lítt athuguðu máli, og þó að litið sje á þetta með mesta velvilja, þá er ómögulegt annað en að viðurkenna það, að þessi deild sker sig úr eins og hvítt og svart hvað undirbúninginn snertir.

Búnaðarþingið gerði ráð fyrir að undirbúa slíka löggjöf sem þessa, og jeg geri ráð fyrir, að svo verði. En hvort sem það verður gert eða ekki, þá verður áreiðanlega lögð fyrir næsta þing endurskoðun á þessum kafla frv. Þessar brtt. hv. landbn. eru einungis til þess að tefja tímann og gera ekki annað gagn en að lappa upp á eitt gat af mörgum, sem á frv. eru.