16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

101. mál, póstmál og símamál

Magnús Guðmundsson:

Jeg er mjög þakklátur hv. þm. V.-Ísf. fyrir hans undirtektir undir mína brtt. Og jeg skal lýsa yfir því, að jeg mun mjög fús greiða atkv. með hans till. Ástæðan til, að jeg tók ekki þetta atriði með, var sú, að jeg veit, að mjög óvíða í sveitum eru I. og II. fl. stöðvar, og þess vegna kæmi þetta óvíða fyrir. En jeg get alveg eins verið með till., þó mjer sýnist hún ekki hafa sjerstaklega mikla þýðingu út af fyrir sig.

Jeg vil undirstrika það, sem hv. þm. sagði, að í kauptúnum geti ekki verulegir örðugleikar talist á því, þótt símstöð og póststofa sjeu ekki í sama húsi.

Jeg vona, að úr því að svona góður liðsmaður bættist í hópinn, verði brtt. samþ. Og jeg skal gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að ekki verði talað um málið úr hófi fram í hv. Ed. (HJ: Hvað er „úr hófi“?). Svo mikið, að málið nái ekki fram að ganga.