17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

101. mál, póstmál og símamál

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekki fyr tekið til máls um þetta mál, sem meiri hl. samgmn. flytur nú hjer í hv. d.

jeg gerði það ekki af því, að jeg er yfirleitt sammála n. mönnum um það, að frv. beri að samþ.

Málið mun vera þannig til komið að í vetur var skipuð n., einskonar samgmn., sem hafði þetta og annað til athugunar, og þetta er eitt af hennar verkum. Aðaltilgangur frv. er sá, að sameina sem mest störf við póst og síma. Þetta álít jeg rjetta meginreglu, einkum vegna þess, að það er hægt að fá betri og hæfari menn til þess að vinna þessi störf heldur en þegar þau eru sitt í hvoru lagi; það er sem sje hægt að borga meira fyrir þau sameiginlega. Og fleiri ástæður sem fyrir þessu. Jeg hefði talið það mestu nauðsyn, að sparnaður í þessum framkvæmdum hefði orðið þegar í stað, og það var ætlun frv. Nú hafa við 3. umr. í Nd. einhverjir framsóknarmenn og íhaldsmenn sameinað sig um till., sem fara fram á það í raun og veru að gera þetta frv. að einu stóru núlli. Verði þær samþ., gildir það ekkert frekar en nú, hvenær þessi sameining skuli fara fram. Því að stj. er innan handar að sameina þessa hluti án þess að hafa þessa löggjöf um það. Það er gert á mörgum stöðum í landinu nú þegar. Ef við eigum að láta þetta frv. verða að einhverju gagni, þyrfti að taka þessa loðmollu út úr því, sem Nd. kom inn í á síðustu stundu, og mjer er sagt, að hafi orðið með hálfgerðri blekkingu. Þætti mjer rjettast, að málið væri aftur fært í sitt fyrra horf, að framkvæmd þessara laga byrjaði þegar í stað, því að öðrum kosti nær það engan veginn sínum tilgangi. Það verður þá bara verið að smágutla við þessa sameiningu, en engin róttæk umbót gerð.

Jeg veit, að hv. þm. hafa gert sjer grein fyrir brtt. minni við 7. gr., og þykist ekki þurfa að skýra hana fyrir deildinni, sem sjálfri var það ljóst, þegar málið var til umr. áður, hvaða þýðingu það hefði að geta byrjað þegar í stað á sameiningunni.