06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Mjer finst það undarlegt, að hæstv. forsrh. vill ekki gefa neinar upplýsingar í þessu máli, en vísar aðeins til manna, sem við getum ekki spurt. Þar sem jeg er nú einn af þeim, sem eiga að greiða atkvæði um þetta, þá vil jeg snúa mjer til hv. landbn. og spyrja hana, hvaða ástæður lágu til þess, að þessi hlutföll voru ákveðin og samþ. í hv. Ed. Það er auðvitað hreinasta fjarstæða, að við eigum að fara að greiða atkv. eftir því, hvort frv. fer aftur til hv. Ed. eða ekki, því að það er ennþá alveg nógur tími til þess að afgr. málið. Jeg vildi mælast til þess, að hv. n. skýrði málið og gæfi útdrátt úr öllum gangi þess í hv. Ed., svo að hægt væri að átta sig á því. Eins og kunnugt er, þá er nú fyrst farið að útbýta brtt. við fjárlögin í hv. Ed., svo að það getur alls ekki verið nein hætta á því, að frv. dagi uppi, þó að því sje breytt hjer núna.