02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

47. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Þeir hv. jafnaðarm. hafa nú allir talað gegn þessu frv. Ræður af líkum, að vörnin muni verða nokkuð erfið fyrir mig, er slíkir sækja, og það hvorki meira nje minna en í sex ræðum. En það vill svo vel til, að öll þau rök, sem hv. jafnaðarmenn hafa borið fram gegn frv., eru gamlir kunningjar og hafa verið marghrakin.

Það er gamalt vígorð hjá mótstöðumönnum þessa frv., að með því sje verið að taka kosningarrjettinn af kaupstaðarbúum. Það er alveg eins og þessir hv. þm. muni ekki eftir því, að menn þeir, er þeir bera svo mjög fyrir brjósti, geta kosið áður en þeir fara að heiman, og ennfremur, að þeim er heimilt að kjósa hvar sem þeir eru staddir utan kjördæmis. Finst mjer hvorugt svo mikil fyrirhöfn, að hægt sje að telja, að menn sjeu sviftir kosningarrjetti, þótt þeir kynnu að þurfa að notfæra sjer þessi rjettindi. Og ef það er borið saman við erfiðleika þeirra, er í sveitum búa, sem oft þurfa að fara heilar dagleiðir á kjörstað hvernig sem viðrar, þá verður harla lítið úr þessum mótbárum. Og þeim, sem þekkja norðlenskar stórhríðar eins og þær geta verið verstar og vita, að þú er ekki einu sinni kleift að komast á milli bæja, finst það undarlegt, þegar talið er, að kaupstaðarbúar sjeu sviftir kosningarrjetti með frv. Má þá ekki segja, að sveitabúar sjeu sviftir kosningarrjettinum, þegar þeir geta oft alls ekki komist á kjörstað vegna illviðris? (HV: Þeim finst þetta besti tíminn! — LH: þetta er ekki satt!). Það er alveg rjett hjá hv. þm. V.-Sk., að það er ekki að óskum þeirra, að kjördagur sje 1. vetrardagur.

Ein af mótbárum hv. þm. Ísaf. var sú, að 1. júlí væru menn ekki búnir að kynna sjer þingtíðindin. Þetta er einskisverð ástæða, því að þingtíðindin eru oft ekki öll komin út fyrir veturnætur og þingtíðindin frá því í fyrra eru ekki einu sinni komin út ennþá. En þó að ekkert slíkt væri til fyrirstöðu, lesa menn ekki þingtíðindin um hásláttinn. (HG: Spakur maður hv. 1. þm. Skagf.). Hinsvegar er það rjett athugað hjá hv. þm. Ísaf., að 1. júlí er milli voranna og sláttar, og mun því vera heppilegasti tíminn, sem hægt er að fá. (HV: Hvers vegna er kjördagurinn ekki settur fyr en 1. júlí? — Forseti: Ekki samtal). Jeg býst við því, að hv. 2. þm. Reykv. geti fengið orðið mjög bráðlega og þurfi því ekki að grípa fram í. Það er skylda þingsins að gæta þess, að kjördagurinn sje á þeim tíma, sem hentugastur er.

Hv. þm. Ísaf. játaði, að veður gætu verið misjöfn 1. vetrardag, en þá væri ekki annað en að hafa kjördeildirnar nógu margar. Vill hv. þm. ganga inn á að hafa kjördeild á hverjum bæ? Hann veit vel, að svo mikið óveður getur komið, að eigi sje fært á milli bæja. Það var alveg rjett hjá hv. þm., að síðustu kosningar voru mjög vel sóttar, og taldi hv. þm., að áhugi manna á stjórnmálum hafi verið óvenju mikill. Jeg er ekki vonlaus um, að hv. þm. hjálpi til þess að halda þeim áhuga við, því að ekki fer hv. þm. batnandi. (HG: Jeg var ekki í stj. þá, og jeg er heldur ekki í henni núna). Það eru fleiri en stj., sem geta haldið uppi stjórnmálaáhuga.

Hv. þm. gat þess, að hann grunaði mig um græsku í þessu máli. Jeg verð að segja alveg það sama um hann. Hygg jeg, að hv. þm. muni í ljettu rúmi liggja, þótt ekki komi öll atkv. úr sveitunum 1. vetrardag.

Þá sagði hv. þm., að áskoranir þær, er Alþingi hafa verið sendar út af máli þessu, sýndu almenningsvilja, og því bæri þinginu að taka tillit til þeirra. Ef svo væri, væri nokkuð öðru máli að gegna; en sannleikurinn mun sá, að þessar samþyktir sýna aðeins vilja þeirra, er um þær hafa beðið. Og jeg veit það, að þegar hv. þm. Ísaf. sendir beiðni til flokksbræðra sinna um slíkar áskoranir, þá gera þeir það fyrir hinn góða flokksbróður sinn, að samþ. þær. (HG: Eru þeir svona góðir við þm. í Skagafirðinum?). Jeg efast ekki um, að þeir mundu margir verða við ósk minni, ef jeg færi fram á slíkt, en munurinn er aðeins sá, að mjer kæmi aldrei slíkt til hugar.

Þegar hv. þm. var að tala um almenningsviljann, var hann mintur dálítið á stjórnarskrána, og sljákkaði þá svo í honum, að hann lauk máli sínu í skyndi.