02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

47. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Thors:

Það, sem mjer sýnist skifta hjer mestu máli, er það, hvort með breyt. þeirri, sem í frv. þessu felst, sje verið að gera tilraun til að gera nokkrum mönnum erfiðara með að neyta atkvæðisrjettar síns. Mjer hefir skilist, að úr þeim vankvæðum, sem bundin eru við það að hafa kjördaginn fyrsta júlí, sje auðvelt að bæta, og meira að segja hafi þegar verið bætt, og sje því ekki öðru um að kenna en áhugaleysi manna, ef þeir neyta ekki atkvæðisrjettar síns. Hitt sýnist mjer, að vel geti komið fyrir, að fyrsta vetrardag sjeu menn hindraðir frá því að sækja kjörfund, bæði vegna vondrar yfirfærðar og óhagstæðrar veðráttu, sem oft er á þeim tíma árs. Er aðstaða sveitafólks í þessum efnum alt önnur en kaupstaðabúanna, sem oftast nær þurfa ekki annað en stíga upp í bifreiðina og láta aka sjer á kosningarstaðinn. Þá ber og á það að líta, að oft getur verið mjög erfitt, og jeg vil segja nær ókleift fyrir hjón, sem eru t. d. ein fullorðinna manna á heimilinu, að yfirgefa það og skilja börnin ein eftir, þegar haust er komið og allra veðravon.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að þau kjördæmi væru nauðafá, sem það geti komið fyrir í, að veðrátta og færi gætu hindrað fólk frá því að komast á kjörstað 1. vetrardag. Með þessum ummælum hv. þm. er þá fengin játning fyrir því frá andstæðingi þessa frv., að slíkt geti komið fyrir. Er hann því og flokksbræður hans að berjast gegn því, að reynt verði að bæta úr ranglæti, sem þeir beinlínis viðurkenna, að eigi sjer stað. Það sannast því ljóslega hjer, sem jeg oft hefi sagt, að tal þeirra um rjettlæti er oft og einatt látalæti ein, sem þeir eru að reyna að slá sig til riddara með.