02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

47. mál, kosningar til Alþingis

Þorleifur Jónsson:

Jeg hafði ekki búist við miklum umr. um þetta mál við 1. umr. og því ekki hugsað mjer að taka til máls eða búist við að þurfa að verja það svo mjög. Þetta mál hefir mætt andmælum hjer fyr á þingi, en aldrei beint komið fram það, sem nú kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það væri flutt af illgirni gagnvart einni stjett. Jeg mótmæli því harðlega. Það er ekki flutt af neinni illgirni, heldur til þess að fá hv. þm. til að leita eftir þeim kjördegi, sem yrði hentugastur fyrir allan almenning í landinu. Því að þótt við höfum nefnt fyrsta júlí, er ekki þar með sagt, að ekki megi taka annan dag, ef menn geta orðið ásáttir á að finna heppilegri dag um líkt leyti árs. Það, sem kom mjer til þess að skrifa mig sem flm. á frv., er það, að jeg vissi vel, að þótt fyrsti vetrardagur geti verið ýmsum kjördæmum hentugur, þar sem ekki er illviðrasamt eða vetur legst snemma að, þá er það svo, að í harðindasveitum landsins hefir það sýnt sig, að hann hefir einmitt bagað mönnum frá því að njóta kosningarrjettar síns. Jeg skal og geta þess um mína sýslu, að enda þótt illveður bagi ekki fyrsta vetrardag, þá eru þar svo stór vatnsföll, sem einmitt á þeim tíma eru oft mjög örðug yfirferðar. Þau geta verið uppblásin af krapa eftir stórrigningar, þegar frost koma á snögglega, og illfær. Og þegar þess er gætt, að þessi vatnsföll eru ekki eitt eða tvö í ýmsum sveitum, heldur fleiri, eru örðugleikarnir auðsæir. Þannig er til dæmis í öræfum, og yrði að skifta sumum hreppunum í minni sýslu í þrjár til fjórar kjördeildir, til þess að öldungis væri víst, að vötn væru ekki til fyrirstöðu.

Að þessi tími sje sjerstaklega bagalegur fyrir þá, sem stunda sjó, getur vel verið, og það er langt frá, að jeg vilji af ásettu ráði gera sjómönnum erfiðara fyrir en öðrum mönnum að sækja kjörfund. En mjer finst það hafa sýnt sig, að þeir hafi getað notað kosningarrjett sinn fyrst í júlí, enda hafa þeir átt kost á að greiða atkv. áður en þeir fara að heiman í atvinnu. Jeg veit til, að við síðustu kosningar notuðu menn þennan rjett, sem fóru úr Austur-Skaftafellssýslu til Austfjarða til að stunda sjó. Og þegar tillit er tekið til þess, að á síðasta þingi voru lög þessi svo endurbætt, að nú ætti ekki að vera nein hætta á, að hægt sje að misnota þau, þá álít jeg, að þeir sjeu ekki svo ákaflega illa settir, sem verða að vera fjarstaddir vegna atvinnu sinnar.

Jeg vildi sem sagt mótmæla fyrir mitt leyti, að frv. sje flutt af illgirni til nokkurrar stjettar. Jeg vænti þess, að n. geti komið sjer saman um einhvern dag, sem heppilegri væri fyrir allan almenning heldur en fyrsti júlí eða fyrsti vetrardagur. Það hefir verið tekið fram, að löggjafinn hafi sjeð það fyrir langalöngu, að fyrsti vetrardagur var langheppilegastur. En það er ekki svo langt síðan fyrsti vetrardagur var ákveðinn. Áður var það 10. september, og stundum var kosið á vorin í fyrri daga. En nú, síðan kjördagur var valinn fyrsti vetrardagur, hefir komið í ljós vaxandi óánægja hjá þeim, sem erfiðast eiga með að sækja kjörfund á þessum degi.