02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

47. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Thors:

Það er bara til að gefa litlar upplýsingar, hvernig hagar til í sveit, þessum Reykvíkingum, sem hjer hafa talað og litla þekkingu hafa á sveitalífi — eins og jeg.

Við fórum nokkrir þm. — og raunar fleiri úr Reykjavík — austur í Skaftafellssýslu á síðasta hausti og kyntumst þá dálítið þeim örðugleikum, sem sveitamenn eiga við að búa um kjörsókn og annað. Jeg ætla ekki að rekja það langt, en minnast á það, að ritstjóri „Tímans“ — án þess að jeg vilji telja orð hans merk, hvorki í þessu sambandi eða öðru — sagði frá því í blaði sínu, er flokkurinn undir forystu vatnavíkingsins hv. þm. V.-Sk. var að leggja út í Múlakvísl. Þá var það, að dómsmálaráðherrann íslenski á traustum vatnahesti ríður út í með vetlinga á höndum. En í afturfylkingu er ritstjóri „Tímans“ og maður, sem Jón heitir Baldvinsson. Segir ritstjórinn frá því, að þeir hafi verið að dást að hugrekki — óþörfu hugrekki — dómsmrh., að hann skyldi ríða með vetlinga yfir þetta vatn, og bætir við, að í þeim Jóni hafi verið talsverður geigur. Ritstj. „Tímans“ er nú ekki talin nein höfuðkempa, en Jón Baldvinsson er ekki deigari en gerist og gengur, og þótt jeg að vísu trúi því vart, að Jón hafi nötrað í söðlinum, sýnir þetta þó þau kjör, sem sveitamenn eiga við að búa. Það er þessi geigur, sem var í Jóni Baldvinssyni, sem þeir þurfa að yfirvinna, þegar þeir eiga að brjótast í myrkri til kjörstaðarins eða frá. (HG: Eru jökulárnar mestar fyrsta vetrardag?). Jökulárnar eru oft vondar, en verstar vitanlega í leysingum. En það, sem örðugast er, er að þurfa að fara yfir þær í myrkri. Það er nauðsynlegt að velja skársta vaðið, en það sjá vatnamenn á því, hvernig straumurinn liggur.

Það er þetta, sem jeg vildi minna hv. jafnaðarmenn á, ef þeir kannast við Jón þennan Baldvinsson, sem geigurinn var í, að þeir ættu ekki að leggja það á sveitamenn að þurfa að fara hálfskjálfandi á eftir traustum vatnamanni út í jökulárnar til kjörsóknar.