06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hannes Jónsson:

Jeg vil aðeins lýsa yfir því, að þó að þessar brtt. hv. landbn. sjeu rjettmætar, þá mun jeg greiða atkv. á móti þeim, svo að ekki þurfi að hrekja málið á milli deilda og stofna því þannig í voða.

Annars kemur mjer kynlega fyrir sjónir framkoma íhaldsmanna í þessu máli. Hjer rísa upp þrír hv. íhaldsmenn hver á eftir öðrum með heilagri vandlætingu og þykjast ekkert vita, hvaðan á sig stendur veðrið. Þeir gera sjer auðsjáanlega leik að því að tefja málið og er alveg ósárt um, þó að það verði að flækjast á milli deilda það sem eftir er þingsins.

Hvers vegna standa allir hv. íhaldsmenn í Ed. að því sem einn maður að setja inn breytingar, sem eru svo fráleitar, að þær geta varla komið til framkvæmda? Það er einkennileg tilviljun þetta írafár íhaldsins að sameinast jafnaðarmönnum, og verður varla skilið á annan hátt en fyrirfram ákveðin tilraun til þess að stofna málinu í hættu á síðustu stundu. Og undarlega kemur mjer fyrir sjónir, ef hv. íhaldsmönnum í Nd. hefir verið ókunnugt um þetta ráðabrugg, svo göfugt sem það er. Þeir geta að minsta kosti ekki talið mjer trú um það.