06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Það var óneitanlega dálítið gaman að þessum hita, sem hljóp í hv. þm. V.-Húnv. núna síðast. Hvað veit hann um, hvað við höfum samþ. á flokksfundi, og hvað varðar hann um það? Þegar við spyrjum um það, hvaða ástæður sjeu fyrir því, að þessu frv. var breytt í hv. Ed., þá er það auðvitað af því, að við vitum það ekki, og það kemur alleinkennilega fyrir sjónir, að þeir menn, sem helst geta gefið upplýsingar og borið boð á milli deilda, þeir gera það ekki. Það kann vel að vera, að í flokki hv. þm. V.-Húnv. sjeu menn svo þrælbundnir á flokksklafann, að þeir þori ekkert að segja eða gera í annarihvorri deild þingsins án þess að hafa fengið það samþ. á flokksfundi; en þetta er ekki svo hjá okkur í íhaldsflokknum. Við erum algerlega frjálsir menn og höfum ekki tekið upp þessa heimilisvenju Framsóknarmanna.

Mig furðar satt að segja á því, að hæstv. ráðh. og hv. frsm. skuli láta sjer detta í hug að vísa til manna í annari deild með upplýsingar í málinu. Eins og kunnugt er, þá er frv. hjer til síðustu umr. og getur komið til atkv. hvenær sem vill, svo að við megum ekki hreyfa okkur úr sætunum og eigum því ómögulegt með þetta.

Jeg skil ekkert í þessum frágangi hjá hv. n„ að hún skuli bera fram brtt. án þess að kynna sjer ástæður beggja málsaðilja. Hv. n. hefir enga heimild til þess að fara þannig að ráði sínu, og það er engin hemja á þessu starfi hennar, að hún skuli hafa afgr. málið án þess að kynna sjer það nokkurn skapaðan hlut.

Jeg ætla að greiða atkv. á móti brtt. hv. n., af því að jeg get ekki sjeð, að neinar verulegar ástæður sjeu færðar fyrir henni, og nefndarmenn virðast ekki hafa nema óljóst hugboð um, hvað gerst hafi í málinu. Jeg vil þó taka það fram, að jeg greiði alls ekki atkv. á móti brtt. af hræðslu við það, að málið verði að fara á milli deilda, og fá þannig ef til vill ekki afgreiðslu.

Að lokum vil jeg segja þá skoðun mína, að það er svo langt frá því, að þetta sje nokkurt stórmál, eins og sumir vilja halda fram. Þetta er einmitt reglulegt smámál, því að alt, sem stórt er í því, var til áður, eins og t. d. ræktunarsjóður og byggingar- og landnámssjóður.