24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

47. mál, kosningar til Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Mjer finst það ákaflega einkennileg afgreiðsla, sem hjer lítur út fyrir, að meiningin sje að hafa á þessu máli. Eins og sýnir sig í nál. meiri hl., er hv. allshn. margklofin í málinu og enginn nefndarmaður getur gengið að frv. eins og það var borið fram af báðum aðalflokkum þingsins. Það er eins og enginn vilji kannast við þennan óburð, sem frv. er.

Þrír hv. nm., eða meiri hl., leggja til, að í stað 1. júlí, sem getur borið upp á sunnudag, þá skuli kjördagur lögfestur fyrsta laugardag í júlímánuði. Þó að segja megi, að breyt. þessi sje smávægileg, þá sje jeg ekki, hvaða ástæða er til hennar, nema tilgangurinn sje að bjarga sunnudagshelginni. Fjórði nefndarmaðurinn, hv. 2. þm. Árn., hugsar minna um helgi sunnudagsins. Hann leggur þvert á móti til, að kosið sje á helgum degi. Hann leggur til, að kjördagur verði framvegis hinn 3. sunnudagur í septembermánuði. En fimti maðurinn í n., hv. 2. þm. Reykv., leggur eindregið til, að frv. verði felt og kjördagurinn haldist hinn sami og nú er. (MG: Hvar stendur það?). Það er á allra vitorði, enda víkur hv. frsm. meiri hl. að því í nál. sínu.

Þeir, sem hlýddu á 1. umr. þessa máls, heyrðu ekki önnur rök borin fram fyrir þessari breyt. á kosningalögunum en þau, að hún væri gerð með það fyrir augum, að auðveldara yrði fyrir sveitamenn að neyta kosningarrjettar síns. Ekkert annað en þetta kom þá fram sem ástæða fyrir breyt., og dró jeg þegar í efa, að það mundi af heilindum mælt, heldur lægi annað og meira á bak við, eins og jeg mun síðar koma að. Jeg benti þá líka á, að ef þetta væri aðalástæðan, sem haldið var fram um nauðsyn á færslu kjördagsins, þá væru aðrar leiðir auðfarnari til þess að ná því takmarki, sem stefnt væri að; t. d. væri eðlilegra að fjölga kjördeildum í stórum hreppum, með því mætti gera mönnum auðveldara um að sækja kjörfund. En enginn þeirra hv. þdm., sem annars þykjast bera svo mjög hag sveitafólksins fyrir brjósti, hefir tekið undir þetta, nje heldur hitt, sem jeg benti á, að hafa kjördaga fleiri en einn, ef ástæða þykir til vegna veðurs.

Enginn þessara manna hefir viljað taka neitt tillit til kaupstaðabúanna, og verður því þó ekki neitað, að með færslu kjördagsins fram á mesta annatíma ársins verður verkalýðnum gert miklu erfiðara að neyta kosningarrjettar síns.

Það er að vísu rjett, að mönnum er gefinn kostur á í kosningalögunum að kjósa utan kjörstaða, en á því eru þó mörg vandkvæði, því bæði er nú það, að áhugi manna í bæjunum er oft einna mestur sjálfan kosningadaginn, og gleyma menn því oft að fara til sýslumanns eða annara, sem þeir lögum samkv. geta kosið hjá utan kjörstaðar; stundum er þetta líka með öllu ómögulegt, t. d. þegar bráðan ber að um burtför, annaðhvort síðla kvölds eða að nóttu til, eins og oft getur komið fyrir sjómenn og þá verkamenn, sem atvinnu sína sækja í aðra landsfjórðunga. Þegar svo bráðan ber að, vinst ekki tími til þess að kjósa, enda er ekki skrifstofum haldið opnum í því skyni að nóttu til.

Annað það, sem jeg tel mæla mest á móti því, að kjördagurinn verði fluttur á mesta annatíma ársins, er tómlæti alls þorra kjósenda um það leyti um að fylgjast með í málum þjóðarinnar. Þá er hugurinn bundinn við allskonar störf og minna tóm til að taka afstöðu til málanna. Þá er Alþingi nýlokið og ekki komnar fullar fregnir af störfum þess. Og þó að eitthvað kunni að vera komið út af Alþingistíðindunum, þá eru fæstir búnir að kynna sjer þau, og sama er um blöðin að segja; þau fara, eða efni þeirra, fyrir ofan garð og neðan hjá öllum almenningi á þeim tíma árs. Jeg fæ því ekki sjeð, að nokkuð sje bætt fyrir þeim, sem í sveitum búa, frekar með frv. en því, sem jeg hefi bent á, nema síður sje, en hitt orkar ekki tvímælis, að öllum þorra verkalýðs í kaupstöðum og kauptúnum er gert torveldara fyrir að neyta kosningarrjettar síns með því að hafa kjördaginn í júlímánuði.

Það má líka líta á það, að eins og kjördæmaskipunin er nú, vantar mikið á, að um lýðræði sje að ræða í landi hjer. Veldur þar mestu um, hvað kjördæmin eru afarmismunandi fólksmörg. T. d. hefir einn kjósandi á Seyðisfirði jafnmikil áhrif á skipun Alþingis og 6 kjósendur hjer í Reykjavík. Þó að óvíða sje jafnmikill munur og þarna, þá er hann þó víða mikill, og afarmismunandi hvað margir kjósendur standa að baki hverjum einstökum þm. Ef svo á að bæta því ofan á þetta mikla órjettlæti að færa kjördaginn á mesta annatíma þjóðarinnar, þegar verkalýðurinn hefir orðið að sundrast í atvinnuleit víðsvegar um land, þá er sýnt, að allverulega er höggið af lýðræðinu og rjettur alþýðu við sjóinn er rýrður til þess að hafa hönd í bagga með löggjöf landsins.

Eftir því, sem mjer hefir skilist, þá hefir það aðallega ýtt undir þessar kröfur sveitanna um færslu kjördagsins, að daginn, sem landskjörið fór fram haustið 1926, var hríðarveður á Norðurlandi. Það mun rjett vera, að í 2 eða 3 sýslum hafi þá verið allmiklir örðugleikar á að sækja á kjörstað, vegna óveðurs og ófærðar. En líti maður á landið í heild, þá hygg jeg, að það sýni sig, að í engum landskjörskosningum hafi verið jafnmikil þátttaka og einmitt haustið 1926.

Væri nú horfið að því ráði, að taka upp þá breyt., sem jeg hefi drepið á: að fjölga kjördeildum í stórum hreppum, eða þar sem þurfa þykir, þá væri það trygt að svo miklu leyti sem hægt er, að allir komist á kjörstað; þá mætti og tryggja þetta enn betur með því að fjölga kjördögunum líka. Með því að hafa kjördaginn aðeins einn, má aldrei búast við, að allir kjósendur til sveita geti sótt á kjörstað. En með því að fjölga kjördeildum og hafa kjördagana fleiri má tryggja það, að hver einasti kjósandi í sveitum landsins geti neytt kosningarrjettar síns.

Annars vildi jeg spyrja hæstv. forseta, hvort fundurinn sje lögmætur, og hvort ekki sje ástæða til að fresta umr.? (Forseti: Þm. munu vera hjer á næstu grösum (hringir)). Jæja, jeg sje, að svo muni vera, þó að margir stólar standi auðir.

Jeg minnist þess, að hæstv. forsrh. og enda fleiri hafa haldið því fram, að þeir teldu, að í þessu landi ætti þungamiðja hins pólitíska valds að vera í sveitunum. Það hefir stundum verið int eftir því, hvaða ástæður lægju til þess, en aldrei hafa fengist svör við því, sem nein svör geti kallast. Hitt þykist jeg hafa orðið var við, að vald sveitanna hefir verið allmikið í þessari hv. deild. Og ef frv. þetta verður samþ., gæti jeg hugsað mjer, að það yrði til þess að auka það vald enn meir á þingi, en áreiðanlega órjettilega þó. Hjer er stefnt að því að auka vald sveitanna með því að draga úr rjettmætum áhrifum kaupstaðabúa á skipun þingsins. Þetta er ranglæti, fullkomið ofbeldi. Það mun áreiðanlega hefna sin, ef bændur neyta meirihlutavalds síns hjer í deildinni til þess að ganga á rjett verkalýðsins við sjóinn.

Það er ofurauðvelt að tryggja rjett beggja, bænda og verkalýðs, ef sú leið er farin, sem jeg hefi bent á. Þá geta kjósendur sveitanna neytt kosningarrjettar síns hvernig sem viðrar, án þess að skertur sje rjettur þeirra, sem við sjóinn búa, eða þeim gert óhægra að kjósa.

Jeg sje hvorugan frsm. minni hl. koma enn, hvorki hv. 2. þm. Reykv. eða hv. 2. þm. Arn., og skil jeg því ekki, hvaða ástæða er til að hespa málið af að þeim báðum fjarstöddum. (HK: Hv. 2. þm. Árn. er víst kominn austur í Árnessýslu). Hann hefir þá mátt stíga stórum, ef hann er kominn þangað, því að jeg sá hann alveg nýlega hjer frammi á ganginum.

Jeg hygg, að reynslan hafi sýnt, að kosningar 1. vetrardag hafi að jafnaði verið betur sóttar en á öðrum tíma árs. Þá er liðinn allur mesti annatíminn, og þá hafa menn betra tóm til að íhuga þjóðmálin og skapa sjer skoðun um þau, þá taka öll fjelög upp starf sitt, sem legið hefir niðri um annatímann, þá eru þau að búa sig undir andleg og fjelagsleg störf, sem vinna á að vetrinum; þess vegna er áhuginn mestur og best lifandi að haustinu. Að vorinu er þetta alveg öfugt. Þá dvínar þjóðmálaáhuginn og hverfur í önnum dagsins og sumarsins. Sje meiningin að ætlast til, að sem flestir kjósi, þá er sjálfsagt að gefa mönnum kost á að neyta þess rjettar á þeim tíma, sem þeir hugsa mest um málin og geta búið sig sem best undir að taka afstöðu til þess, sem um er deilt. (BSt: Ef veður þá ekki hamla). Jeg hefi í till. mínum bent á leiðir, sem bæta úr því. (BSt: Já, kannske með því að kjósa á hverjum bæ). Það nær ekki nokkurri átt, að veðrátta sje svo slæm, að kjósa þurfi á hverjum bæ, ef kjördagar eru fleiri en einn. Jeg hefi líka verið í Norðurlandi og veit, að varla getur verið um að ræða í byrjun vetrar, að þar sje 4 daga samfleytt ófært bæja í millum. Svo þetta er ekkert annað en grýla, sem búa má til handa þeim, sem aldrei hafa í Norðurland komið og ekkert þekkja þar til. En hitt fæ jeg alls ekki skilið, hvers vegna ekki má leiðrjetta þetta misrjetti, sem talað er um, að kjósendur sveitanna geti orðið fyrir vegna óveðurs, á annan hátt en þann að ganga á rjett þeirra, sem í kaupstöðunum búa. Nú er vitanlegt, að þar, sem fámenni er á bæ, en langt á kjörstað, þá er ómögulegt að ætlast til, að allir geti kosið, jafnvel þó á vordegi sje. Þar sem langt er á kjörstað, en svo hagar víða til þar, sem jeg er kunnugur, þá mundi fólkið verða að tvískifta sjer, vegna þess að þar, sem börn eru á bænum, er ekki hægt að skilja þau ein og ósjálfbjarga eftir. Mundu þá aðrir fara að morgni, en hinir síðar, þegar þeir, sem fyr fóru, væru komnir aftur, og gæti þá svo farið, að dagurinn entist þeim ekki; áreiðanlega hagar svo til víða, að þetta er alveg ókleift. Mjer finst því, að alt beri að sama brunni, að ef breyta á kosningalögunum, þá sje nær að setja heimild um, að hafa megi fleiri kjördaga en einn, og að fjölga kjördeildum þar, sem það þykir betur fara.

Það er einmitt þetta sama, sem hv. 2. þm. Árn. virðist hafa komið auga á. Og þar sem hann er ekki viðstaddur, ætla jeg að lesa svolítið upp úr nál. hans, máli mínu til stuðnings, en þeim fáu hv. þdm., sem hjer eru staddir, til lærdóms og eftirbreytni, að jeg vona. (BSt: Það hafa allir lesið það, enda er það ekki svo langt). Það má vel vera, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Nál. byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg get ekki talið hentugt að hafa kosningar um háannatíma landsmanna. Hinsvegar geta veður bagað 1. vetrardag, enda kosningar áður ákveðnar í september. Bændur eiga örðugast með að sækja kjörfundi, og þar sem einyrkjabúskapur verður almennari með ári hverju, eiga þeir margir ekki heimangengt virka daga“. Og svo bætir hann við: „Mundi því rjettast að hafa kosningarnar á sunnudegi“.

Hv. 2. þm. Árn. kemst að sömu niðurstöðu og jeg um örðugleika bænda að sækja kjörfundi á hvaða tíma árs sem er. Hinsvegar fæ jeg ekki sjeð, svo að jeg tali þá einnig fyrir þennan hv. frsm. (MT), sem ekki virðir málið svo mikils, að honum finnist taka því að vera viðstaddur, þegar það er til 2. umr. — jeg fæ sem sje ekki sjeð, að ljettara sje fyrir einyrkja að sækja kjörfund á sunnudegi heldur en á laugardegi eða öðrum virkum degi. Jeg fæ ekki betur sjeð en að sama annríki sje á einyrkjasveitaheimilum sunnudaga eins og aðra daga. Á meðan jeg var í sveit voru þar sömu búverk alla daga jafnt á sama árstíma, og alveg eins á helgum dögum eins og virkum.

Brtt. hv. 2. þm. Árn. bætir því alls ekki fullnægjandi, þótt hún sje skárri en frv. og till. meiri hl. En hún sannar þó það, sem jeg hefi haldið fram og allir eiga að vita, sem sje það, hvað örðugt er fyrir alla að neyta kosningarrjettar síns um mesta annatíma ársins.

Jeg get látið þetta nægja um sinn, en ætla að enda þennan ræðustúf með því að segja, að mig furðar ekkert á því, þó að hv. frsm. meiri hl. vilji tala stutt. Jeg hefi fyrir satt, að hann vilji sem minst um þennan óburð sinn tala, og er það mjög að vonum.